Enski boltinn

Benítez nýr stjóri Gylfa

Sindri Sverrisson skrifar
Rafa Benítez starfaði síðast í Kína en er mættur til Liverpool-borgar.
Rafa Benítez starfaði síðast í Kína en er mættur til Liverpool-borgar. EPA-EFE/WILL OLIVER

Rafael Benítez er snúinn aftur til Liverpool-borgar og hefur samið um að verða knattspyrnustjóri Everton næstu þrjú árin.

Frá þessu greina BBC og fleiri enskir miðlar. Benítez er mættur á Goodison Park og aðeins spurning hvenær Everton mun kynna hann sem nýjan stjóra félagsins.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa verið án knattspyrnustjóra síðan að Carlo Ancelotti ákvað að hætta til að taka við Real Madrid fyrr í sumar.

Benítez verður fyrsti knattspyrnustjórinn til að stýra erkifjendunum í Everton og Liverpool, ef undan er skilinn William Edward Barclay sem kom að stofnun beggja félaga.

Stuðningsmenn Everton hafa vonandi fyrirgefið Spánverjanum það þegar hann kallaði Everton „smátt félag“ eftir markalaust jafntefli Liverpool og Everton á Anfield árið 2007. Benítez sagðist síðar hafa gert mistök og aðeins hafa verið að gagnrýna það hvernig David Moyes lét lið Everton spila í leiknum.

Benítez stýrði Liverpool í sex ár og undir hans stjórn vann liðið Meistaradeild Evrópu og ensku bikarkeppnina.

Benítez starfaði síðast í Englandi þegar hann stýrði Newcastle árin 2016-19. Eftir það tók hann við Dalian Professional í Kína en hætti þar í janúar og bar því að hann vildi tryggja betur öryggi fjölskyldu sinnar vegna kórónuveirufaraldursins.

Samningur Gylfa við Everton gildir í nákvæmlega eitt ár til viðbótar. Al-Hilal, félag í Sádí-Arabíu, hefur verið sagt á höttunum eftir honum en Gylfi mun ekki hafa áhuga á þeim félagaskiptum. Nú er bara spurning hvernig honum líst á komu Benítez og hvaða hlutverk sá spænski ætlar íslenska landsliðsmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×