Erlent

Hús­leit hjá blaða­mönnum sem ljóstruðu upp um ráð­herra

Kjartan Kjartansson skrifar
Roman Badanin, aðalritstjóri Proekt. Hann er sagður hafa stöðu grunaðs manns í rannsókn í ærumeiðingarmáli sem tengist heimildarmynd sem hann gerði um kaupsýslumann í Pétursborg árið 2017.
Roman Badanin, aðalritstjóri Proekt. Hann er sagður hafa stöðu grunaðs manns í rannsókn í ærumeiðingarmáli sem tengist heimildarmynd sem hann gerði um kaupsýslumann í Pétursborg árið 2017. AP/Evgení Feldman

Rússnesk yfirvöld gerðu húsleit á heimilum nokkurra rannsóknarblaðamanna og ættingja þeirra í morgun rétt áður en þeir birtu frétt um meint auðæfi innanríkisráðherra landsins. Ríkisstjórn Vladímírs Pútín þjarmar nú að frjálsum fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni í aðdraganda þingkosninga.

Húsleitin beindist að ritstjóra og blaðamönnum Proekt, fréttasíðu sem stundar rannsóknarblaðamennsku. Lögreglumenn leituðu í íbúð Romans Badanin, aðalritstjóra, og Mariu Zholobovu, blaðamanns miðilsins. Þá fóru lögreglumennirnir um heimili foreldra Mikhails Rubin, aðstoðarritstjóra. Rubin var sjálfur tekinn höndum nærri íbúð Zholobovu og færður heim til foreldra sinna, að sögn AP-fréttastofunnar.

Proekt sagði á samfélagsmiðlinum Telegram að húsleitin hefði verið gerð eftir að fjölmiðilinn boðaði birtingu á rannsókn á meintum auðæfum Vladímírs Kolokoltsev, innanríkisráðherra. Umfjöllunin birtist á vefnum skömmu eftir að húsleitin hófst.

Síðar sagði vefmiðillinn að húsleitin á að minnsta kosti tveimur staðanna tengdist meiðyrðamáli kaupsýslumanns í Pétursborg vegna heimildarmyndar Badanin og Zholobovu frá 2017 þar sem hann var bendlaður við skipulagða glæpastarfsemi.

Stjórn Pútín forseta hefur háð harða herferð gegn frjálsum fjölmiðlum og stjórnarandstöðunni undanfarnar vikur. Fjöldi stjórnrandstæðinga hefur sætt handtökum og húsleit. Þá voru Meduza og VTimes, tveir sjálfstæðir fjölmiðlar, lýstir „erlendir útsendarar“ en það hefur í för með sér aukið eftirlit yfirvalda. VTimes var lokað í kjölfarið en aðstandendur Meduza hófu hópfjármögnun til þess að bjarga miðlinum.

Þá voru samtök Alexei Navalní, eins helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar, gegn spillingu lýst ólögleg öfgasamtök nýlega. Skilgreiningin þýðir að fólk sem hefur tengst samtökunum getur ekki boðið sig fram til þingkosninga sem fara fram í haust.


Tengdar fréttir

Náinn bandamaður Navalní eftirlýstur

Rússnesk yfirvöld lýsa nú eftir Ivan Zhdanov, nánum bandamanni Alexeis Navalní, í kjölfar þess að dómstóll úrskurðaði samtök Navalní gegn spillingu ólögleg öfgasamtök í vikunni. Zhdanov veitti sjóði Navalní foyrstu.

Sam­tök Naval­nís lýst ó­lög­leg öfga­sam­tök

Borgardómstóll í Moskvu féllst í dag á kröfu saksóknara um að lýsa samtök Alexeis Navalní, stjórnarandstöðuleiðtoga í Rússlandi, ólögleg öfgasamtök. Það hefur það í för með sér að meðlimir samtakanna mega ekki bjóða sig fram í þingkosningum í landinu í september.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×