Erlent

Segir af sér fyrir að brjóta sóttvarnareglur við framhjáhald

Sunna Karen Sigurþórsdóttir og Kjartan Kjartansson skrifa
Brosið er líklega horfið af andliti Matts Hancock sem sagði af sér sem heilbrigðisráðherra Bretlands í dag.
Brosið er líklega horfið af andliti Matts Hancock sem sagði af sér sem heilbrigðisráðherra Bretlands í dag. Vísir/EPA

Matt Hancock hefur sagt af sér sem heilbrigðisráðherra Bretlands. Breskir miðlar birtu í vikunni myndir af ráðherranum og samstarfskonu hans þar sem þau sjást faðmast og kyssast.

Hancock, sem er giftur þriggja barna faðir, segist í yfirlýsingu hafa brugðist bresku þjóðinni, óásættanlegt hafi verið að hann hafi sjálfur ekki virt tveggja metra regluna á sama tíma og hann bað landsmenn það. 

Boris Johnson, forsætisráðherra, sagðist sjá á eftir Hancock. Heilbrigðisráðherrann fyrrverandi hafði þó meðal annars verið undir þrýstingi eftir fréttir af því að Johnson hefði kallað hann „vonlausan“ og blótað til áherslu í textaskilaboðum til þáverandi ráðgjafa síns í fyrra.

Myndirnar af Hancock í kossafansi við Ginu Coladangelo, samstarfskonu sína, voru teknar í heilbrigðisráðuneytinu. Breska ríkisútvarpið BBC segir að Coladangelo þessi sé einnig gift, þriggja barna móðir.

Gagnrýni hefur einnig komið fram á hvernig Coladangelo reis til metorða innan heilbrigðisráðuneytisins. Þau Hancock hafa verið vinir frá því á háskólaárum sínum. Hún var skipuð í stöðu þar sem hún þurfti aðeins að vinna 15-20 daga á ári en fékk laun upp á jafnvirði rúmlega tveggja og hálfrar milljónar króna í september.

Forsætisráðuneytið fullyrðir að skipan Colandangelo hafi verið eftir réttum ferlum.

Ekki liggur fyrir hver tekur við embættinu af Hancock.


Tengdar fréttir

Taldi ráð­herra í eigin ríkis­stjórn von­lausan með öllu

Dominic Cummings, fyrrverandi aðstoðarmaður Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur birt einkaskilaboð milli þeirra tveggja þar sem Johnson segir Matt Hancock, heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn sinni, vera „algjörlega vonlausan.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.