Eftir um hálftíma leik fékk Jason höfuðverk og átti í erfiðleikum með að anda. Kallað var eftir lækni, Jason borinn af velli og hann fór svo í sjúkrabíl upp á spítala.
Jason var útskrifaður af spítalanum sama kvöld og í samtali við Vísi á mánudaginn sagðist hann hafa það gott og biði eftir að fara í frekari rannsóknir.
Í yfirlýsingu Breiðabliks segir að farið hafi verið eftir öllum reglum þegar hugað var að Jasoni í leiknum á sunnudaginn. Sjúkraþjálfarar beggja liða sinntu honum sem og tveir heilbrigðisstarfsmenn úr stúkunni.
Þeirra mat var að ekki væri þörf á að sjúkrabíll kæmi í forgangsakstri á Kópavogsvöll. Sumir furðuðu sig á því hversu lengi sjúkrabíllinn var á leiðinni en í yfirlýsingu Breiðabliks segir að hann hafi komið eftir ellefu mínútur og hefði eflaust komið fyrr ef þörf hefði verið á.
Jafnframt segir að komið hafi verið með hjartastuðtæki inn á völlinn í samræmi við verklagsreglur félagsins, öryggisins vegna. Sem betur fer þurfti ekki að nota það enda var Jason allan tímann með meðvitund.
Í yfirlýsingunni segir ennfremur að Breiðablik leggi sig fram um að hafa alla framkvæmd, öryggismál og umgjörð leikja eins og best verður á kosið og reglulega sé farið yfir skipulag þessara mála.
Yfirlýsingu knattspyrnudeildar Breiðabliks má lesa hér fyrir neðan.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.