Íslenski boltinn

Logi hættur sem þjálfari FH

Sindri Sverrisson skrifar
Logi Ólafsson er hættur sem þjálfari FH.
Logi Ólafsson er hættur sem þjálfari FH. VÍSIR/VILHELM

Logi Ólafsson er hættur sem þjálfari karlaliðs FH í fótbolta. Samkvæmt tilkynningu frá knattspyrnudeild FH var það sameiginleg niðurstaða beggja aðila að Logi myndi stíga til hliðar.

Logi og Davíð Þór Viðarsson hafa stýrt FH saman frá því í desember, eftir að Eiður Smári Guðjohnsen hætti til að taka við sem aðstoðarlandsliðsþjálfari. Davíð átti upphaflega að vera aðstoðarmaður Eiðs hjá FH.

Logi og Eiður tóku við FH af Ólafi Kristjánsysni í júlí í fyrra og undir þeirra stjórn vann FH tíu af fjórtán leikjum í Pepsi Max-deildinni. Eftir tímabilið var Logi ráðinn sem tæknilegur ráðgjafi hjá FH en var mjög skammt í því hlutverki eftir að Eiður hvarf á braut.

Í yfirlýsingu FH-inga er ekkert sagt um framtíð Davíðs svo ætla má að hann stýri liðinu áfram. Samkvæmt heimildum íþróttadeildar gæti Ólafur Jóhannesson komið inn í þjálfarateymið og þar með snúið aftur í Kaplakrikann þar sem hann var svo sigursæll sem þjálfari.

Eftir fína byrjun á Íslandsmótinu í ár hefur FH gengið afar illa undanfarið og aðeins fengið eitt stig úr síðustu fimm leikjum sínum. Lokaleikur Loga var 4-0 tapið gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í gærkvöld.

Yfirlýsing FH:

FH og Logi Ólafsson haf komist að sameiginlegri niðurstöðu um starfslok Loga hjá FH. Logi tók við FH liðinu um mitt síðasta tímabil og undir hans stjórn endaði liðið í 2. sæti deildarinnar ásamt því að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Stjórn knattspyrnudeildar þakkar honum vel unnin störf í gegnum tíðina og óskar honum velfarnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.