Erlent

„Afar ólíklegt“ að Biden fengi að skipa hæstaréttardómara 2024

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
McConnell hefur ekki reynst samkvæmur sjálfum sér hvað varðar skipan hæstaréttardómara.
McConnell hefur ekki reynst samkvæmur sjálfum sér hvað varðar skipan hæstaréttardómara. epa/Jim Lo Scalzo

Mitch McConnell, leiðtogi minnihluta bandarísku öldungadeildarinnar, segir afar ólíklegt að hann myndi gera Joe Biden Bandaríkjaforseta kleift að skipa nýjan hæstaréttardómara árið 2024 ef repúblikanar næðu aftur meirihluta.

McConnell sagði í útvarpsviðtali í gær að reyndar myndu hvorki repúblikanar né demókratar leyfa forseta úr hinum flokknum að skipa hæstaréttardómara í aðdraganda forsetakosninga.

Þess ber að geta að McConnell kom í vegn fyrir að Barack Obama skipaði Merrick Garland, núverandi dómsmálaráðherra, í hæstarétt í stað Antonin Scalia árið 2016. 

Hann hafði áður lýst því yfir að forseti ætti ekki að skipa hæstaréttadómara skömmu fyrir kosningar en reyndist ekki sjálfum sér samkvæmur þegar hann studdi Donald Trump í að fylla sæti Ruth Bader Ginsburg tvemur mánuðum fyrir forsetakosningarnar í fyrra.

Spurður að því hvað myndi gerast ef sæti losnaði árið 2023, að því gefnu að repúblikanar hefðu aftur náð meirihluta, sagði McConnell það þurfa að koma í ljós.

Nú er svo komið að íhaldssamir dómarar við dómstólinn eru sex en frjálslyndir þrír.

Sú staðreynd kann að hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir bandarísk samfélag, þar sem dómstóllinn mun á næstunni taka fyrir umdeild mál er varða meðgöngurof og takmarkanir á skotvopnaeign.

Stephen Breyer er 82 ára.

Í útvarpsviðtalinu sagði McConnell að það afrek hans að halda sæti Scalia tómu fram yfir kosningar, þannig að það féll í hlut Trump að fylla það, væri það mikilvægasta sem hann hefði gert sem leiðtogi meirihlutans.

Viðbrögð við ummælum McConnell hafa ekki látið á sér standa og nú eykst þrýstingurinn á hæstaréttardómarann Stephen Breyer að láta af störfum á meðan demókratar hafa meirihluta í öldungadeildinni. 

Margir á vinstrivængnum eru enn sárir Ginsburg fyrir að hafa ekki hætt á meðan Obama var forseti en þannig hefði mátt tryggja frjálslyndari arftaka en þann sem Trump skipaði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×