Fótbolti

Cancelo með veiruna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cancelo er með Covid-19.
Cancelo er með Covid-19. EPA-EFE/Shaun Botteril

João Cancelo, bakvörður Englandsmeistara Manchester City og portúgalska landsliðsins, hefur greinst með kórónuveiruna. Hann er því farinn í einangrun og verður ekki með Pórtúgal er liðið hefur leik á EM.

Cancelo hefur eflaust átt að vera í lykilhlutverki hjá Portúgal í sumar eftir frábært tímabil með Manchester City. Portúgal er í dauðariðli Evrópumótsins – ásamt Frakklandi, Þýskalandi og Ungverjalandi – og þarf því á öllum sínum sterkustu mönnum að halda.

Það er allavega ljóst að hinn 27 ára gamli Cancelo verður ekki með í upphafi móts en Fernando Santos, þjálfari Portúgals hefur tekið Diego Dalot, bakvörð Manchester United, inn í leikmannahóp Portúgals fyrir leikinn gegn Ungverjalandi á þriðjudaginn kemur.

Allir sem koma að portúgalska liðinu, starfslið og leikmenn, voru skimaðir í gær. Allir nema Cancelo voru neikvæðir og því ljóst að hann mun ekki taka þátt í leiknum gegn Ungverjum.

Dalot lék með AC Milan á láni í vetur og er nýbúinn að taka þátt í lokaleikjum Evrópumóts landsliða 21 árs og yngri. Þar tapaði Portúgal 1-0 gegn Þýskalandi. Dalot vonast eflaust eftir betri úrslitum gegn Þjóðverjum er A-landslið þjóðanna mætast nú á næstu dögum.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×