Erlent

Tölvuþrjótar segjast hafa komist yfir grunnkóða Electronic Arts

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
EA á meðal annars hina gríðarvinsælu FIFA knattspyrnuleiki.
EA á meðal annars hina gríðarvinsælu FIFA knattspyrnuleiki.

Tölvuþrjótar brutust inn í kerfi Electronic Arts, eins stærsta tölvuleikjaframleiðanda í heimi, og tókst að stela grunnkóða nokkurra leikja fyrirtækisins.

Samkvæmt frétt CNN nam þjófnaðurinn 780 GB en meðal gagnanna sem var stolið var Frostbite-grunnkóðinn, en það er leikjavélin sem knýr leiki á borð við FIFA, Battlefield og Madden.

Þrjótarnir segjast vera í stöðu til að misnota alla þjónustu EA og halda því fram að þeir hafi einnig komist yfir hugbúnaðartól tengdum FIFA 21 og FIFA 22.

Sérfræðingar segja þjófnaðinn alvarlegan, ef rétt reynist. Grunnkóðinn gæti bæði nýst keppninautum og þeim sem stunda það að „hakka“ leiki, það er breyta þeim eða svindla.

Þá geri þjófnaðurinn óprúttnum aðilum kleift að fara í gegnum grunnkóðan og finna mögulega öryggisgalla og jafnvel selja hann á dulvefnum.

Talsmaður Electronic Arts segir í samtali við CNN að þrjótarnir hafi ekki komist yfir gögn spilara. Einhverjum hluta grunnkóða og tengdum gögnum hafi verið stolið. Unnið sé með lögreglu og ekki sé gert ráð fyrir að atvikið muni hafa áhrif á fyrirtækið né spilun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×