Innlent

Mesta lækkun at­vinnu­leysis síðan um alda­mót

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti á laggirnar átakið „Hefjum störf“.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti á laggirnar átakið „Hefjum störf“.

Atvinnulausum hefur fækkað um 2.400 milli mánaða á landsvísu. Það er mesta fækkun sem hefur orðið frá aldamótum, en fjöldatölur Vinnumálastofnunar ná ekki lengra.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti af stað átakið „Hefjum störf“ í mars síðastliðinn. Markmiðið með átakinu var að skapa allt að sjö þúsund tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. En þessir aðilar fá ríflegan stuðning frá hinu opinbera með hverjum nýjum starfsmanni.

Atvinnuleysi mældist 10,4 prósent í apríl á þessu ári, en var komið niður í 9.1 prósent í maí. Lækkunin nemur því 1,3 prósent á milli mánaða, sem eru um 2.400 einstaklingar. Það er mesta lækkun sem hefur orðið síðan 1994. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði.

Atvinnulausum fækkað mest í ferðaþjónustunni

Það má því segja að átakið hafi farið vel af stað og nú eru alls um 10.400 störf í boði hjá Vinnumálastofnun í tengslum við átakið. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu hefur gengið vel að ráða einstaklinga sem hafa verið lengi á atvinnuleysisskrá.

Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum í maí. Mesta fækkunin var í ferðaþjónustutengdum greinum, en þar var fækkunin á bilinu 18-21 prósent.

Ásmundur Einar segir mikið gleðiefni að sjá atvinnuleysi minnka hraðar en spár gerðu ráð fyrir. Hann segir tölurnar sýna að þær aðgerðir sem farið var í með átakinu séu að virka.

„Ég er virkilega ánægður að sjá hvernig atvinnulífið hefur komið af krafti með okkur í þessar aðgerðir og nú er bara að bæta í, sækja fram af krafti og skapa enn fleiri störf á næstu mánuðum.“

Vinnumálastofnun spáir enn frekari lækkun atvinnuleysis og að það verði komið niður í 7,3-7,7 prósent í júní. Ef sú þróun raungerist, mun atvinnulausum hafa fækkað úr 20.000 í lok apríl, í 14.000 í lok júní.


Tengdar fréttir

Sumar­störfum fyrir 2.500 náms­menn út­hlutað

Nú hefur 2.500 sumarstörfum fyrir námsmenn verið úthlutað hjá Vinnumálastofnun en þau eru hluti af átakinu Hefjum störf, sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hrundi af stað. Átakið svipar til þess sem gert var síðasta sumar en átakið í ár nær enn víðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.