Innlent

Sumar­störfum fyrir 2.500 náms­menn út­hlutað

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, tilkynnti í dag að nú hefur 2.500 sumarstörfum fyrir námsmenn verið úthlutað.
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, tilkynnti í dag að nú hefur 2.500 sumarstörfum fyrir námsmenn verið úthlutað. Vísir/Vilhelm

Nú hefur 2.500 sumarstörfum fyrir námsmenn verið úthlutað hjá Vinnumálastofnun en þau eru hluti af átakinu Hefjum störf, sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hrundi af stað. Átakið svipar til þess sem gert var síðasta sumar en átakið í ár nær enn víðar.

„Það verður gengið frá því í dag að 2.500 störf fara í auglýsingu, það er sem sagt búið að skapa þessi 2.500 störf. Þau munu skiptast niður á sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök, sem er í fyrsta skipti, og síðan líka störf fyrir iðnnema vegna þess að þeim hefur gengið erfiðlega við að fá samninga,“ sagði Ásmundur Einar eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Alls hafa 8.700 störf verið skráð í átakinu, 1.700 störfum meira en stefnt var að, og hafa aldrei jafn mörg störf borist til vinnumiðlunar áður.

„Það er gríðarlega ánægjulegt. Síðan erum við tilbúin til þess að ef fyllist í þessi sumarstörf munum við fara strax, þegar líður nær mánaðamótum, að skapa fleiri störf af því að markmiðið er að skapa störf fyrir alla þá námsmenn sem þarfnast vinnu í sumar,“ segir Ásmundur.

Klippa: 2.500 störfum fyrir námsmenn úthlutað

Með hverjum námsmanni, 18 ára og eldir, sem ráðinn er til starfa með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum. Ráðningatímabilið eru tveir og hálfur mánuður og hefur Vinnumálastofnun opnað fyrir umsóknir á þeim störfum sem stofnunin auglýsir.

„Fjöldinn er metinn miðað við reynsluna frá síðasta ári af því að við sköpuðum 3000 störf í fyrra, það fyllist ekki í öll þau störf þannig að það var ákveðið að fara í 2.500 að þessu sinni en lengja tímabilið úr tveimur mánuðum í tvo og hálfan mánuð. En við erum tilbúin, um leið ef það fyllist í þessi störf, þá munum við skapa fleiri störf,“ segir Ásmundur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.