Enski boltinn

Hatursglæpum í Liverpool hefur fækkað mikið eftir komu Mo Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar mörkum sínum með múslimabæn.
Mohamed Salah fagnar mörkum sínum með múslimabæn. EPA-EFE/PETER POWELL

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah hefur ekki aðeins raðað inn mörkum í Liverpool búningnum því hann hefur breytt öllu samfélaginu í Liverpool til hins betra.

Salah hefur spilað frábærlega með Liverpool síðan að hann kom til félagsins og er þegar kominn í hóp tólf markahæstu leikmanna félagsins frá upphafi auk þess að hjálpa Liverpool að vinna bæði Meistaradeildina og ensku úrvalsdeildina.

Ný rannsókn á Stanford háskóla sýnir að áhrif Mohamed Salah séu jafnvel enn meiri utan vallar og þá á samfélagið í Liverpool.

Rannsóknin var gerð á vegum Stanford University Immigration Policy Lab og þar er það skrifað á Mo Salah að hatursglæpum og múslimahatur hafi minnkað mikið síðan að Salah var keyptur frá Roma í júní 2017.

Salah hefur skorað 125 mörk í 203 leikjum fyrir félagið og vantar bara fimm mörk í viðbót til að komast inn á topp tíu yfir markahæstu leikmenn Liverpool frá upphafi. Með frábærri frammistöðu innan vallar hefur Salah fengið fólk á Liverpool svæðinu til að bera meiri virðingu fyrir múslimum sem var svo sannarlega þörf á.

Niðurstöður rannsóknarinnar er að hatursglæpir hafi minnkað um nítján prósent og múslimahatur á netinu hefur minnkað um fimmtíu prósent.

Til að komast að þessu þá skoðaði rannsóknarhópurinn upplýsingar frá lögreglu á sæðinu, kannaði fimmtán milljónir Twitter færslna og lagði spurningalista fyrir átta þúsund manns sem skilgreina sig öll sem stuðningsmenn Liverpool liðsins.

Mikill áhugi fólks á Mohamed Salah þýðir að það hefur fengið góða sýn inn í hans líf innan sem utan vallar. Margir eru að sjá múslima biðja í fyrsta sinn þegar Mohamed Salah fagnar mörkum sínum.

Múslimahatur hefur verið að aukast í Bretland síðan 11. september 2001 og í könnun sem var gerð frá 2015 til 2017 töldu sextíu prósent Breta að íslamstrú stangist á við bresk gildi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.