Fótbolti

„Markmiðið að vinna Meistaradeildina“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vill vinna fleiri titla með Bayern München.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vill vinna fleiri titla með Bayern München. getty/Alexander Scheuber

Karólínu Leu Vilhjálmsdóttir dreymir um að feta í fótspor Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og vinna Meistaradeild Evrópu.

Þýskalandsmeistarar Bayern München, lið Karólínu, komust í undanúrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en töpuðu fyrir Chelsea, 5-3 samanlagt. Allt stefndi í að seinni leikurinn færi í framlengingu en Chelsea skoraði tvö mörk undir lokin og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum. Þar fékk liðið skell gegn Barcelona, 4-0.

Á næsta tímabili ætla Bæjarar að taka næsta skref og fara alla leið í Meistaradeildinni.

„Það er alltaf stefnan hjá Bayern. Þau eru titlaóð. Það hefðu verið rosalega mikil vonbrigði ef við hefðum ekki náð að vinna deildina núna því þá hefðum við misst af þremur titlum. Það var kærkomið að vinna það en maður vill alltaf meira,“ sagði Karólína.

„Það væri geggjað að vinna Meistaradeildina og það er klárlega markmiðið á mínum ferli. Mig langar mjög mikið að vinna Meistaradeildina. Það er eitthvað sem allir leikmenn vilja gera.“

Sara Björk varð fyrst íslenska fótboltakvenna til að vinna Meistaradeildina á síðasta tímabili. Hún var þá í sigurliði Lyon og skoraði í úrslitaleiknum gegn Wolfsburg.

„Hún er rosalega góð fyrirmynd og maður sér að maður getur þetta þegar maður sér hana rústa þessum fótboltaheimi. Þá sér maður að þetta er hægt,“ sagði Karólína.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.