Fótbolti

„Maður þarf stundum að hrósa sjálfum sér“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagnar með Jens Scheuer, þjálfara Bayern München.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagnar með Jens Scheuer, þjálfara Bayern München. getty/Mika Volkmann

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir varð á sunnudaginn annar Íslendingurinn til að verða þýskur meistari með Bayern München. Hún kann vel við sig hjá þýska liðinu og býst við að fá stærra hlutverk hjá því á næsta tímabili.

Í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn vann Bayern 4-0 sigur á Frankfurt og tryggði sér þar með meistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 2016. Karólína fylgdi þar með í fótspor Dagnýjar Brynjarsdóttur sem varð þýskur meistari með Bayern 2015.

„Þetta var þvílíkt gaman og mögnuð tilfinning að vinna titil á mínu fyrsta tímabili. Þetta er einstakt lið með einstaka karaktera og þvílík liðsheild,“ sagði Karólína í samtali við Vísi.

„Tilhlökkunin fyrir þessum leik var mikil og það var ekkert smá gaman að vinna. Mér fannst við eiga þetta svo mikið skilið, þetta er þvílíkt lið og allt í kringum það er til fyrirmyndar.“

Þýskalandsmeistarar Bayern München.getty/Peter Kneffel

Erfitt er að mótmæla því að Bayern hafi meistaratitilinn skilið. Liðið vann tuttugu af 22 deildarleikjum sínum, gerði eitt jafntefli og tapaði aðeins einum leik. Bayern skoraði 82 mörk og fékk bara á sig níu.

Karólína segir að fyrsta tímabilið í atvinnumennsku hafi verið afar lærdómsríkt.

„Þetta hefur verið mjög gaman, mikill skóli en það vita allir að Þýskaland er ekkert grín. Ég hef lært rosalega mikið og nú fer held ég allt upp á við. Ég er ánægð en þetta hefur líka verið rosalega erfitt,“ sagði Karólína og bætti við að æfingaálagið í Þýskalandi væri mikið en ekki óviðráðanlegt.

„Já, en ég myndi ekki segja að þetta væri ekki hægt. Ég þarf stundum að segja við sjálfa mig að vera stolt af mér að vera komin hingað eftir að hafa verið á Íslandi, að spila í Pepsi Max-deildinni og vera svo mætt í þýsku deildina og vinna hana. Maður þarf stundum að hrósa sjálfum sér líka. Stökkið er stórt en ekki of stórt.“

Þrátt fyrir að vera aðeins nítján ára hefur Karólína unnið þrjá meistaratitla á ferlinum, tvo á Íslandi og einn í Þýskalandi.getty/Alexander Scheuber

Karólína var meidd þegar hún kom til Bayern en kom inn í liðið eftir að hafa náð sér af meiðslunum og tók þátt í sex deildarleikjum á tímabilinu.

„Það er mikil trú á mér hérna og ef ég helst heil veit ég að ég fæ stærra hlutverk á næsta tímabili og kemst betur inn í hlutina. Þá fæ ég meira sjálfstraust og þetta snýst mikið um það. Ég þarf bara að halda áfram og halda rétt á spilunum,“ sagði Karólína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×