Fótbolti

Marka­laust í Ís­lendinga­slagnum í Sví­þjóð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla og stöllur hennar í Rosengård eru enn taplausar.
Glódís Perla og stöllur hennar í Rosengård eru enn taplausar. Rosengård

Kristianstad varð í kvöld fyrsta liðið til að ná stigi af Rosengard er Íslendingaliðin tvö öttu kappi í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. 

Þrír Íslendingar tóku þátt í leiknum og þá var Elísabet Gunnarsdóttir á sínum stað á hliðarlínunni en hún er þjálfari Kristianstad.

Rosengård, lið Glódísar Perlu Viggósdóttir, hefur farið frábærlega af stað og höfðu fyrir leik kvöldsins unnið alla sjö leiki sína í sænsku úrvalsdeildinni. Glódís Perla var að sjálfsögðu á sínum stað í hjarta varnar liðsins er það lenti loks á vegg í kvöld.

Sif Atladóttir stóð vaktina i vörn Kristianstad og þá spilaði Sveindís Jane Jónsdóttir nær allan leikinn. Mjög jákvæðar fréttir þar sem hún lenti í slæmum meiðslum í upphafi móts.

Leikurinn fór fram á heimavelli Kristianstad og lauk með markalaustu jafntefli eins og áður sagði, lokatölur 0-0.

Rosengard heldur þó toppsætinu með 22 stig að loknum átta umferðum. Kristianstad er á sama tíma í 4. sæti með 13 stig. Liðið hefur aðeins tapað einum leik af átta en gert fjögur jafntefli og aðeins unnið þrjá.

Sif Atladóttir stóð vaktina í vörn Kristianstad í kvöld.Kristiandsbladet.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×