Fótbolti

Grind­víkingar al­sælir með nýjan eld­gosa­búning

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Þemað í búningnum er nýstorknað hraun.
Þemað í búningnum er nýstorknað hraun. Vísir/Egill

Nýr varabúningur knattspyrnudeildar Grindavíkur, svokallaður Eldgosabúningur, hefur fallið vel í kramið hjá stuðningsmönnum, bæjarbúum og knattspyrnuáhugamönnum um allt land. Þemað er nýstorknað hraun sem flæðir fram með kröftugan kvikugang beggja vegna.

Knattspyrnudeild Grindavíkur kynnti í dögunum nýjan varabúning félagsins fyrir komandi keppnistímabil en Grindavík hefur til fjölda ára leikið í bláum varabúningum. „Við þurftum ekki varabúning í fyrra en vildum fara djarfa leið í ár. Í miðju ferli þegar við vorum að velja búning þá byrjaði að gjósa hjá okkur eftir skjálftahrinu og þetta varð bara niðurstaðan. Við erum afskaplega stolt og ánægð með þennan nýja varabúning,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri UMFG.

Þeman í búningnum er nýstorknað hraun sem flæðir fram með kröftugan kvikugang beggja vegna.

En af hverju er liturinn ekki appelsínugulur? „Það er vegna þess að það er það bleika sem við Grindvíkingar upplifum hérna í skýjaþokunni sem er hérna yfir bænum þegar það er að gjósa,“ segir Jón Júlíus.

Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri UMFG.Vísir/Egill

Búningarnir séu fyrst og fremst hugsaðir fyrir meistaraflokka félagsins. Þeir hafi fallið vel í kramið hjá stuðningsmönnum, bæjarbúum og knattspyrnuáhugamönnum um allt land.

„Við höfum meira að segja fengið frábær viðbrögð frá eldri félagsmönnum sem maður átti svona von á að myndu vera íhaldssamir í þessum efnum en þetta virðist hitta mark hjá öllum hérna í Grindavík og margir sem tala um að við ættum að spila í þessum búning sem aðalbúning í sumar en að sjálfsögðu er guli og blái liturinn okkar litur en við spilum í þessum búningi eins oft og við getum,“ segir Jón Júlíus.

Önnu Maríu og Helenu Rós, ungum og upprennandi fótboltastjörnum, eru mjög hrifnar af búningunum. „Mér finnst hann mergjaður,“ segir Helena Rós.

Þær dreymir um að fá að spila í búningunum í sumar. „Mér finnst hann bara svo svakalega flottur. Mér finnst svo flottur bleiki liturinn,“ segir Anna María.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.