Erlent

Kalla saman á­kæru­dóm­stól vegna rann­sóknar á Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Fyrirtæki Trump er til rannsóknar í New York. Það er sagt hafa ýmist ýkt eða dregið úr verðmæti eigna eftir því sem hentaði hverju sinni.
Fyrirtæki Trump er til rannsóknar í New York. Það er sagt hafa ýmist ýkt eða dregið úr verðmæti eigna eftir því sem hentaði hverju sinni. Vísir/EPA

Saksóknari í New York hefur kvatt saman ákærudómstól sem verður mögulega falið að meta hvort tilefni sé til að gefa út ákæru á hendur Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, eða öðrum stjórnendum fyrirtækis hans. Þetta er sagt benda til þess saksóknari telji líkur á að glæpur hafi verið framinn.

Víðtæk rannsókn umdæmissaksóknarans á Manhattan á Trump-fyrirtækinu hefur staðið yfir í meira en tvö ár. Hún er meðal annars sögð beinast að viðskiptaháttum fyrirtækisins áður en Trump var kjörinn forseti og hvort að það hafi átt við verðmat á eignum til að svindla á fjármála- og tryggingafyrirtækjum og til að komast hjá skattgreiðslum.

Einnig er rannsóknin ná til greiðslna fyrirtækisins til háttsettra starfsmanna, þar á meðal Ivönku Trump, dóttur fyrrverandi forsetans.

Washington Post hefur nú eftir heimildarmönnum sínum að ákærudómstóll hafi verið kallaður saman. Slíkir dómstólar eru nokkurs konar kviðdómur sem tekur afstöðu til þess hvort að tilefni sé til að gefa út ákærur. Blaðið segir að það að saksóknarinn hafi kallað dómstólinn saman bendi bæði til þess að rannsóknin sé langt á veg komin og að saksóknarinn telji sig hafa fundið vísbendingar um glæp.

Ekkert liggur þó fyrir um að saksóknarinn hyggist leggja mögulegar ákærur fyrir ákærudómstólinn. Hann gæti allt eins nýtt sér hann til að gefa út stefnur um gögn sem varða rannsóknina.

Hvorki talsmenn saksóknarans né Trump-fyrirtækisins vildu tjá sig um málið við blaðið. Trump hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu og fullyrt að rannsóknir á sér eigi sér pólitískar rætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×