Erlent

G7 ríkin ætla að hætta að fjármagna kolaorkuver

Samúel Karl Ólason skrifar
Umhverfisráðherrar G7 ríkjanna segja mikilvægt að hætta fjármögnun kolaorkuverka, sem séu ekki búin tækni til að draga úr útblæstri.
Umhverfisráðherrar G7 ríkjanna segja mikilvægt að hætta fjármögnun kolaorkuverka, sem séu ekki búin tækni til að draga úr útblæstri. EPA/SASCHA STEINBACH

Erindrekar G7 ríkjanna hafa komist að samkomulagi um aðgerðir til að draga úr hækkun hitastigs á jörðinni vegna manngerðra veðurfarsbreytinga. Aðgerðirnar taka mið af því að hitastig hækki ekki um meira en eina og hálfa gráðu.

Þessar aðgerðir fela meðal annars í sér að hætta að fjármagna rekstur mengandi kolaorkuverka í fátækari löndum fyrir lok ársins og að varðveita þrjátíu prósent lands fyrir árið 2030. Samkomulagið er í takti við markmið Parísasáttmálans um að draga alfarið úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2050.

Umhverfisráðherrar Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Japans, Kanada og Þýskalands komust að þessu samkomulagi í dag. Samkvæmt heimildum BBC eru forsvarsmenn ráðherrafundarins frekar ánægðir með niðurstöðu fundarins, sem fór fram á netinu.

Nokkrir aðrir fjarfundir milli ráðherranna verða haldnir þar til þeir hittast í Cornwall á Bretlandseyjum í næsta mánuði.

Í skjali sem blaðamenn Reuters hafa komið höndum yfir, þar sem niðurstöður fundarins eru tíundaðar, segir að mikilvægt sé að alþjóðasamfélagið hætti að fjárfesta í kolaorkuverum. Er þar sérstaklega minnst á kolaorkuver þar sem ekki er notast við tækni sem dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Tækni sem er ekki í mikilli notkun í orkuverum í dag.

Ráðherrarnir eru sagðir hafa orðið fyrir miklum áhrifum af nýlegri skýrslu frá Alþjóðaorkumálastofnuninni um að ef markmið Parísarsáttmálans ættu að nást mætti ekki reisa eitt orkuver sem keyrði á kolum, olíu eða gasi í framtíðinni.

Í áðurnefndu skjali kemur einnig fram að G7 ríkin ætla að fara fram á við forsvarsmenn annarra ríkja að samþykkja einnig þessar aðgerðir. Samkvæmt Reuters á það sérstaklega við Kína, sem brennir um helming þeirra kola sem brennd eru í heiminum.


Tengdar fréttir

Botnvörpuveiðar taldar losa jafnmikið og flugsamgöngur

Allt að milljarður tonna af koltvísýringi losnar út í höf jarðar vegna botnvörpuveiða á ári, meira en losnar frá samgöngum út í loftið. Þetta er á meðal bráðabirgðaniðurstaðna nýrrar rannsóknar á hvernig þjóðir geta barist gegn loftslagsbreytingum og hruni vistkerfa hafsins.

Þetta gæti Biden gert í loftslagsmálum án þingsins

Líkur eru á því að hendur Joe Biden, verðandi forseta Bandaríkjanna, verði að miklu leyti bundnar hvað varðar stórtækar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af völdum manna á meðan repúblikanar ráða efri deild Bandaríkjaþings. Hann gæti þó beislað framkvæmdavaldið til að bregðast við vánni.

Norðurskautið gæti orðið íslaust að sumri innan tuttugu ára

Fyrstu niðurstöður viðamesta leiðangurs sögunnar á Norðurskautið voru kynntar á webinar hjá Hringborði norðurslóða, Arctic Circle, í dag. Hann staðfestir miklar breytingar sem muni meðal annars stuðla að aukinni tíðni ofsaveðra um allan heim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×