Erlent

Evrópu­þingið greiðir at­kvæði um metnaðar­fyllri lofts­lags­mark­mið

Kjartan Kjartansson skrifar
Salur Evrópuþingsins í Brussel.
Salur Evrópuþingsins í Brussel. Vísir/EPA

Óljóst er um afdrif frumvarps um að gera loftslagsmarkmið Evrópusambandsins lagalega bindandi í atkvæðagreiðslu sem verður haldin í Evrópuþinginu í kvöld. Helst er deilt um nýtt og metnaðarfyllra markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda næsta áratuginn.

Tillaga framkvæmdastjórnar ESB er að draga úr losun aðildarríkjanna um að minnsta kosti 55% fyrir árið 2030. Núverandi markmið er 40% samdráttur miðað við losun árið 1990 en hertra aðgerða er þörf ef sambandið ætlar sér að ná markmiði um kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina.

Til að auka samdráttinn í losun þarf að setja harðari reglur um útblástur bifreiða og leggja hærra kolefnisgjald á iðnað og flugfélög. Ísland tekur þátt í sameiginlegu viðskiptakerfi sambandsins um losunarheimildir í iðnaði.

Umhverfisnefnd Evrópuþingsins samþykkti enn metnaðarfyllri samdrátt upp á 60% í síðasta mánuði. Reuters-fréttastofan segir að rétt tæplega helmingur þingheims hafi heitið því að styðja frumvarp um það í dag.

„Ég held að við höfum sögulegt tækifæri til þess að færa loftslagsstefnuna upp á hærra stig,“ segir Jytte Guteland, Evrópuþingmaður frá Svíþjóð sem er í forsvari fyrir metnaðarfyllri tillöguna.

Íhaldsmenn á Evrópuþinginu ætla sér þó að styðja frumvarp um 55% samdrátt. Þeir telja of djarft að stefna að 60% samdrætti næsta áratuginn. Peter Liese, þýskur Evrópuþingmaður frá Evrópska þjóðarflokknum (EPP), segist bjartsýnn á að frumvarp hans flokks nái fram að ganga.


Tengdar fréttir

Metnaðar­fyllra Parísar­mark­miðið gæti brugðist á næstu árum

Mögulegt er að hnattræn hlýnun nái 1,5°C þegar á næstu fimm árum, að mati Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO). Metnaðarfyllsta markmið Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum var að takmarka hlýnun við 1,5°C frá tímanum fyrir iðnbyltingu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×