Erlent

Leiðtogi Boko Haram sagður dáinn eða alvarlega særður eftir átök við ISIS-liða

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr Shekau, leiðtogi Boko Haram.
Abu Bakr Shekau, leiðtogi Boko Haram.

Abu Bakr Shekau, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Boko Harem, dó eða særðist alvarlega, í átökum við vígamenn Íslamska ríkisins á Afríku (ISWAP) í norðausturhluta Nígeríu í gær. Eftir átök meðlima hryðjuverkasamtakanna var Shekau umkringdur í Sambisa skógi.

Hann er sagður hafa reynt að ræða við ISIS-liða en án árangurs. Þá er hann sagður hafa beint byssu sinni að sjálfum sér, eða sprengt sig í loft upp.

Tvennum sögum fer af örlögum Shekau. AFP fréttaveitan hefur eftir einum heimildarmanni sínum í Nígeríu að Shekau sé alvarlega særður eftir að hafa reynt að skjóta sig og öðrum að hann hann hafi reynt að sprengja sig í loft upp.

Aðrir miðlar hafa þó sagt frá því að Shekau hafi sprengt sig í loft og sé dáinn. Þeirra á meðal er nígeríski miðillinn HumAngle.

Vert er að taka fram að Shekau hefur þó nokkrum sinnum verið sagður dáinn á undanförnum árum.

AFP segir að félögum Shekau hafi tekist að koma honum til hjálpar svo hann hafi ekki verið handsamaður af ISIS-liðum.

Í rúman áratug hafa íslamistar háð blóðuga uppreisn í norðausturhluta Nígeríu. Boko Haram byrjaði árásir sínar árið 2009 og hafa minnst fjörutíu þúsund manns fallið í árásum samtakanna og átökum sem tengjast þeim. Tvær milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Sjá einnig: Liðs­menn Boko Haram grunaðir um hrotta­leg morð á tugum bænda

Ofbeldið hefur einnig teygt anga sína til Níger, Tjad og Kamerún.

Það voru Shekau og vígamenn hans sem rændu fleiri en þrjú hundruð skólastúlkum í Chibok í Nígeríu árið 2014. Árið 2015 lýsti Shekau svo hollustu við Íslamska ríkið í Sýrlandi.

Árið 2016 komu upp deilur innan Boko Haram og hryðjuverkasamtökin tvístruðust í Boko Haram og ISWAP. Samtökin hafa síðan barist sín á milli og við her Nígeríu. ISWAP hefur þó vaxið ásmegin á undanförnum árum og náð tökum á stærri svæðum í Nígeríu og gert umfangsmeiri árásir en áður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.