Erlent

Liðs­menn Boko Haram grunaðir um hrotta­leg morð á tugum bænda

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur vottað fjölskyldum hinna látnu samúð.
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur vottað fjölskyldum hinna látnu samúð. EPA/ANDRE PAIN

Uppreisnarmenn úr röðum Boko Haram eru grunaðir um að hafa myrt að minnsta kosti 43 almenna borgara, aðallega bændur og sjómenn, í Borno-ríki í norðurhluta Nígeríu í dag. Fórnarlömbin voru að sinna störfum sínum við hrísgrjónauppskeru þegar árásin var gerð í dag, daginn sem íbúar í Garin Kwashebe í Borno-ríki gengu til sveitarstjórnakosninga í fyrsta sinn í 13 ár.

Fréttum ber ekki öllum saman um fjölda fórnarlamba en samkvæmt frétt AP,BBC og annarra miðla af málinu eru þau sögð um eða yfir fjörutíu. AFP-fréttaveitan segir þau aftur á móti vera um 110.

Fregnir herma að fórnarlömbunum hafi verið safnað saman áður en vopnaðir uppreisnarmenn tóku þau af lífi með því að skera þau á háls.

„Ráðist var á bændurna á Garin-Kwashebe hrísgrjónaakrinum í Zabarmari og samkvæmt fregnum sem við höfum fengið frá því síðdegis hafa um fjörutíu þeirra verið drepnir,“ sagði Malam Zabarmari, leiðtogi hagsmunasamtaka hrísgrjónabænda á svæðinu, í samtali við AP.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur sent frá sér samúðarkveðjur vegna morðanna. „Ég fordæmi morð hryðjuverkamanna á okkar duglegu bændum í Borno-ríki. Þjóðin öll er í sárum eftir þessi tilgangslausu morð. Hugur minn er hjá fjölskyldum þeirra á þessum sorglegu tímum. Megi þeir hvíla í friði,“ sagði forsetinn í yfirlýsingu.

Árásin er ein sú hrottalegasta sem framin hefur verið undanfarna mánuði á svæðinu þar sem bæði hryðjuverkasamtök sem kenna sig við íslamskt ríki og Boko Haram eru með virka starfsemi. Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni þótt Boko Haram liggi undir grun.

Nokkurra bænda er enn saknað og segja mannréttindasamtökin Amnesty International að tíu konur séu þeirra á meðal.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×