Umfjöllun og viðtöl: HK - FH 1-3 | Ágúst Eðvald lykillinn að sigri FH

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Ágúst Eðvald jafnar metin.
Ágúst Eðvald jafnar metin. vísir/vilhelm

FH kom sér upp í fyrsta sæti deildarinnar eftir sigur á HK á útivelli 3-1. Þeir eru alls komnir með 10 stig eftir fjórar umferðir en HK hefur ekki ennþá náð að sigra leik á tímabilinu.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með og spiluðu bæði lið með mikilli baráttu. HK-ingar fengu töluvert fleiri færi í leiknum og þar af var eitt víti sem þeir brenndu af. FH-ingar náðu þó fleiri sóknum þó svo að þeir hafi ekki náð að skapa sér færi. Leikurinn var spilaður af miklum krafti og fengu HK sitt fyrsta færi þegar rúmlega fjórar mínútur voru liðnar af leiknum.

Fyrsta mark leiksins kemur á 27. mínútu eftir frábært spil hjá HK. Ekki leið langur tími þar til FH-ingar jafna metin. HK-ingar ná að skapa sér nokkur færi þar til fyrri hálfleikur rennur út en það dugði ekki til og voru hálfleikstölur 1-1.

Fyrstu mínútur síðari hálfleiks byrjuðu virkilega jafnar og eins og í fyrri hálfleik áttu HK-ingar fleiri færi. Á 56. mínútu verður misskilningur í vörn HK sem verður til þess að FH ná að komast yfir 2-1. HK gáfu hins vegar ekki upp og börðust virkilega vel og var leikurinn lengi vel virkilega jafn þar sem bæði lið skiptust á að vera í sókn.

Ásgeir Börkur reynir að tækla Eggert Gunnþór.vísir/vilhelm

Mikið var um gula spjaldið í dag og þá aðallega hjá HK-ingum en þeir fengu dæmd á sig fjögur gul spjöld á meðan FH-ingar fengu aðeins tvö. Oft á tíðum mátti einnig sjá skrítna dóma á HK-inga þar sem dómarinn virtist á tímum ekki alveg vera með á nótunum.

Undir lok leiksins voru HK-ingar orðnir vel þrystir í að jafna sem verður til þess að þeir fara að spila mun framar heldur en þeir höfðu gert. FH-ingar nýttu sér það og náðu að bæta við sínu þriðja marki á 85. mínútu leiksins.

Lokatölur í Kórnum 3-1 og FH-ingar fagna því vel að vera komnir í 1. sæti deildarinnar.

Afhverju vann FH?

Þrátt fyrir að HK-ingar hafi fengið töluvert fleiri færi heldur en FH þá nýttu þeir síðarnefndu sín færi mun betur. FH fengu fleiri sóknir, spiluðu góða vörn og voru yfir höfuð mun skipulagðari í leiknum. Þrátt fyrir að eiga á tímum erfitt með snöggar sóknir HK þá eru þeir reyndari og þar af leiðandi agaði.

FH-ingar komust oft á tíðum upp með það að tefja leikinn í seinni hálfleik sem gerði þeim til góðs.

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði FH átti Ágúst Eðvald Hlynsson stórleik en hann skoraði tvö af þremur mörkum FH í dag. Hann var snöggur í sókn og lék vel með boltann. Gunnar Nielsen stóð sig vel í marki FH og varði marga flotta bolta í dag.

Hjá HK-ingum var það Birnir Snær Ingason sem stóð upp úr en hann spilaði virkilega vel í kvöld. Hann náði að skapa mörg færi og kom með flottar stoðsendingar sem því miður enduðu ekki í markinu. Birni tókst að skora eina mark HK í leiknum.

Mágarnir Örvar Eggertsson og Steven Lennon eigast við.vísir/vilhelm

Hvað gekk illa?

Þrátt fyrir mörg sköpuð færi og góðar sóknir hjá HK-ingum þá klúðruðu þeir mörgum færum. Þeir fengu einnig eina vítaspyrnu í leiknum sem þeir nýttu sér ekki. Í lok leiksins fóru þeir að spila vel framarlega sem gaf FH færi á að komast í sókn og skora. Dómarinn reyndist þeim erfiður í dag og létu þeir hann oft á tíðum fara illa í sig. Sjálfstraustið í liðinu virtist hafa farið með öðru marki FH.

Hvað gerist næst?

HK-ingar fá ÍA í heimsókn á föstudaginn í hörkuleik en liðin eru hvorug búin að vinna leik í deildinni. Á laugardaginn fá FH-ingar KR í heimsókn.

Gunnar var vel sáttur við að verja vítaspyrnu kvöldsins.vísir/vilhelm

Logi Ólafsson: Öruggari núna en á bekknum

„Ég er mjög ánægður með þetta, ég er öruggari núna heldur en á bekknum. Maður var aldrei öruggur með þetta. Þeir berjast eins og brennandi ljón allan tímann og þetta er eiginlega spurning um það við þessar aðstæður að það er bara liðið sem leggur meira á sig sem stendur uppi sem sigurvegari og ég held að við höfum gert það í dag,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari FH.

„Við vitum alveg hvernig þeir hafa verið að spila og þeir hafa spilað virkilega vel en voru óheppnir á móti Val til dæmis þannig að við vissum að þetta yrði bara hörkuleikur og að við yrðum bara að vinna eins og grimm ljón allan tímann.“

„Maður er alltaf ánægður með mörk sem liðið skorar og ef aðdragandinn er góður og ef góður undirbúningur er að markinu þá fær maður aðeins sterkari tilfinningu fyrir þessu og er ánægðari.“

FH-ingar eru komnir með tíu stig og sitja nú í 1. sæti deildarinnar. Fyrir leikinn höfðu þeir spilað einum fleiri í 181 mínútu af þeim 270 mínútum sem þeir höfðu spilað á tímabilinu.

„Mér líður mjög vel. Við erum virkilega sáttir og ánægðir með það hvernig við höfum farið í þessa leiki og hvernig við höfum unnið. Við höfum verið að tala um það að við höfum verið að spila svo rosalega margar mínútur einum fleiri og ég er bara ánægður með það að HK voru ellefu allan tímann og við unnum og gerðum þrjú mörk á móti liði sem voru ellefu allan tímann og þetta hefur í sjálfu sér ekkert með okkur að gera því það eru dómararnir sem reka menn útaf en ekki við.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.