Enski boltinn

Sýndu Palestínu stuðning í bikarfögnuðinum á Wembley

Sindri Sverrisson skrifar
Hamza Choudhury með palestínska fánann á Wembley á laugardaginn.
Hamza Choudhury með palestínska fánann á Wembley á laugardaginn. Getty/Marc Atkins

Þegar Hamza Choudhury og Wesley Fofana gengu um Wembley-leikvanginn á laugardaginn, sem nýkrýndir bikarmeistarar í enskum fótbolta með liði Leicester, héldu þeir fána Palestínu á lofti.

Choudhury, sem er enskur miðjumaður, og franski varnarmaðurinn Fofana ákváðu að sýna Palestínumönnum stuðning líkt og tugþúsundir manna gerðu víða í borgum Evrópu í gær.

Talið er að 197 manns hafi dáið í loftárásum Ísraelshers á Gasasvæðinu síðustu daga, þar af 58 börn.

Choudhury bar palestínska fánann á herðum sér þegar hann tók við gullverðlaunum sínum á laugardaginn, eftir 1-0 sigur Leicester á Chelsea. Þeir Fofana héldu einnig á fánanum þegar liðið gekk sigurhring um Wembley eftir að hafa orðið bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Fleiri knattspyrnumenn hafa látið sig blóðbaðið á Gasasvæðinu varða og sýnt Palestínumönnum stuðning. Egyptinn Mohamed Elneny, leikmaður Arsenal, gerði það á samfélagsmiðlinum Twitter í síðustu viku.

Sky Sports fékk það staðfest frá Arsenal að félagið hefði rætt við Elneny vegna skrifa hans, eftir að kaffiframleiðandinn Lavazza, einn af bakhjörlum Arsenal, lýsti yfir áhyggjum af þeim. Félagið tók þó fram að allir starfsmenn Arsenal hefðu rétt á að tjá sínar skoðanir á eigin samfélagsmiðlum en að talið hefði verið rétt að útskýra fyrir Elneny hverjar afleiðingar skrifa hans gætu orðið.


Tengdar fréttir

Leicester City bikar­meistari í fyrsta sinn í sögu fé­lagsins

Leicester City lagði Chelsea 1-0 í úrslitum FA-bikarsins sem fram fór á Wembley í Lundúnum fyrir framan 20 þúsund manns í dag. Youri Tielemans með glæsilegt mark í síðari hálfleik og það dugði þó mikil dramatík hafi verið undir lok leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×