Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan - Víkingur 2-3 | Stjarnan í tómu tjóni

Atli Arason skrifar
Víkingur fagnaði góðum sigri í Garðabæ í kvöld.
Víkingur fagnaði góðum sigri í Garðabæ í kvöld. Vísir/Elín Björg

Víkingur Reykjavík sótti þrjú stig í Garðabæinn í kvöld er Stjarnan tók á móti Víking í Pepsi Max deild karla. Lokatölur 3-2 Víkingum í vil.

Víkingar komu ákveðnir og að miklum krafti inn í þennan leik. Nikolaj Hansen skorar strax á fimmtu mínútu leiksins eftir að Víkingar pressa Stjörnuna hátt upp á vellinum þá gefur Haraldur Björnsson boltann beint á Niko sem þakkar pent fyrir sig með því að skora fyrsta mark kvöldsins. 

Óli Valur Ómarsson var sprækur í liði gestanna en þessi ungi og efnilegi leikmaður var að spila sinn fyrsta leik byrjunarliðinu hjá Stjörnunni og var sennilega mesta ógn heimamanna í upphafi leiks. Á 12. mínútu leiksins neyðist Sölvi Geir Ottesen að fara meiddur út af í liði Víkings og riðlar það töluvert leikskipulagi Víkings.

Bæði lið ógnuðu marki andstæðinganna til skiptis, en á 30. mínútu dróg til tíðinda. Langur bolti út frá varnarlínu Stjörnunnar barst til Emil Atlasonar sem fer illa með Kára Árnason út við hliðarlínuna og veður upp vinstri vænginn áður en hann stingur boltanum í gegnum vörn Víkinga á Þorstein Má sem nær svo að framlengja boltanum á Hilmar Árna sem klárar skyndisókn heimamanna með snyrtilegu marki sem jafnframt var þeirra fyrsta í sumar.

Einungis 5 mínútum eftir jöfnunarmark Stjörnunnar fá Víkingar vítaspyrnu hinu megin á vellinum. Eftir snarpa sókn gestanna kemur fyrirgjöf af hægri sem Brynjar Gauti reynir að renna sér fyrir en boltinn virðist fara í höndina á Brynjari. Eftir stutt spjall milli Ívars Orra dómara og Birkir Sig aðstoðardómara ákveða þeir að dæma vítaspyrnu. Niko fer á punktinn og kemur Víkingi í 1-2.

Stjörnumenn voru þó ekki lengi að svara þessu og það var ekkert smá svar. Á 45. mínútu fær Hilmar Árni boltann rétt fyrir utan D bogann. Hilmar leggur boltann aftur til vinstri á Tristan Frey sem fer framhjá varnarmanni Víkings áður en hann smellir boltanum með vinstri löpp sinni upp í samskeytin fjær! Mark sem fer án vafa í umræðuna um mark tímabilsins og leikar aftur orðnir jafnir, 2-2.

Víkingar koma ákveðnir út í síðari hálfleik og aftur líða ekki nema rúmar 5 mínútur áður en gestirnir ná aftur að komast yfir í þriðja skipti í leiknum. Í þetta sinn var það hornspyrna sem Pablo Punyed tekur hægra megin. 

Úr leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Pablo spyrnir boltanum inn á miðjan teig heimamanna þar sem Júlíus Magnússon mætir og stangar boltann beint í netið. Stjörnumenn sóttu og sóttu það sem eftir lifði leiks og fengu fjöldann allan af hornspyrnum sem Víkingarnir áttu svar við í nánast hvert skipti. Fór svo að lokum að Víkingar fara heim í Fossvog með stigin þrjú eftir 2-3 sigur og staða Garðbæinga í deildinni orðinn ansi dökk.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingar virtust ákveðnari í kvöld. Þegar Stjarnan jafnar í tvígang þá líða ekki meira en 5 leikmínútur og Víkingur nær aftur forystunni. Það er hægt að skrifa að gestirnir hafi viljað þetta meira í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Nikolaj Hansen átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Elín Björg

Nikolaj Hansen var illviðráðanlegur í fremstu víglínu Víkinga. Víkingarnir leituðu oft hátt á Niko og gerði hann vel í að vinna háu boltana. Niko setti einnig tvö mörk í kvöld og er því augljós kandídat í mann leiksins. Hilmar Árni átti ágætan leik í liði gestanna en hann skoraði eitt ásamt því að leggja upp annað, en hornspyrnur Hilmars hefðu mátt vera betri í kvöld.

Hvað gerist næst?

Víkingar spila næst við Breiðablik núna strax á sunnudaginn á meðan Stjarnan fær einn aukadag í hvíld áður en þeir fara á Skagann til að leika við ÍA

Arnar: Þetta var náttúrulega pjúra víti

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunnivísir/bára

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var vitaskuld mjög glaður með eins marks sigur á útivelli í kvöld.

„Ég er mjög ánægður, þetta var erfiður leikur. Mér fannst Stjarnan virkilega flottir í þessum leik og í fyrri hálfleik var þetta eins og enskur leikur, svona end-to-end stuff. Það var mikið tekist á og barist í leiknum. Stjarnan voru flottir en við sýnum karakter og þroskamerki frá síðustu leikjum, gamla Víkingur hefði brotnað niður en við stigum upp og mér fannst seinni hálfleikur fagmannlega spilaður af okkar hálfu, sem er mjög ánægjulegt fyrir mig sem þjálfara,“ sagði Arnar í viðtali eftir leik.

Tristan Freyr sagði í viðtali stuttu áður að Stjarnan hefði gefið Víkingi ódýr mörk. Arnar var spurður út í þessi ummæli Tristans.

„Hann átti nú helvíti flott mark sjálfur, skot beint upp í skeytin sem var mjög flott hjá honum. Við sóttum mörkin okkar ágætlega. Þetta var náttúrulega pjúra víti í fyrri hálfleik, við náum að opna þá nokkru sinnum og þá sérstaklega hægra megin í fyrri hálfleik og vorum alltaf hættulegir í skyndisóknum. Maður sem þjálfari tryllist oft við að fá mark á sig úr föstum leikatriðum, þannig mögulega skil ég alveg hvað hann [Tristan] er að fara,“ svaraði Arnar.

Að mati Arnars var umdeilda vítaspyrna kvöldsins ekkert annað en pjúra vítaspyrna.

„Mér fannst hann [Brynjar Gauti] stöðva boltann með hendinni þegar boltinn er á leið fyrir markið þar sem einn eða tveir leikmenn biðu eftir boltanum. Boltinn var á leið í hættulega stöðu, það var líka löng fjarlægð á milli sendingarnar og leikmannsins. Það er kannski annað mál þegar leikmaðurinn er stutt frá og spyrnt beint í hendina. Þannig frá mér séð þá stöðvast boltinn á leið lengra inn í teiginn við höndina á honum og það finnst mér bara vera víti.“

Víkingur er með sigrinum meðal fjögurra efstu liða deildarinnar og fá næst Breiðablik í heimsókn. Arnar varar sína menn við því að fara ekki fram úr sjálfum sér.

„Það gefur þreyttum löppum ákveðið adrenalín þegar það gengur vel. Menn verða samt að halda sér á tánum, það þarf fókus alla daga til að halda sér við toppinn, við hlökkum bara til að fá Blika í heimsókn. Ég á von á hörku leik,“ sagði Arnar Gunnlaugsson að lokum.

Þorvaldur: Fyrir rest þá veit enginn hvað er hendi og hvað er ekki hendi

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, taldi Stjörnuna eiga að fá meira út úr leiknum en raun bar vitni.

„Það er svekkjandi að tapa, það segir sig sjálft. Sérstaklega í leik þar sem við erum alltaf að elta, það var samt góður andi í mínum mönnum. Í 2-2 stöðunni þá fannst mér við vera með stjórn á leiknum en þá fáum við þetta mark í andlitið úr horni sem er svona eini séns þeirra þegar leikurinn er í járnum.“

Þorvaldur var alls ekki sáttur með vítaspyrnuna sem Stjarnan fékk dæmda á sig.

„Það er alltaf þessi sama umræða, hendi eða ekki hendi. Rétt á undan var hendi á leikmann Víkings fyrir utan teig og þá var útskýringin á einn hátt og svo kom önnur útskýring þarna. Þetta er bara regla sem verður umtöluð áfram og eitthvað sem við munum aldrei fá útskýringu á. Útskýringin á dóminum, það er hægt að hagræða henni eins og hentar. Fyrir rest þá veit enginn hvað er hendi og hvað er ekki hendi“

Tristan skoraði eins og áður var nefnt hörku flott mark þegar hann jafnar leikinn í 2-2 rétt fyrir hálfleik. Þorvaldur var ánægður með mörkin og frammistöðu Tristans.

„Þetta var fallegt mark, tvö mjög góð mörk reyndar. Tristan er búinn að standa sig vel og er með góðan vinstri fót og á væntanlega eftir að setja þau fleiri svona.“

Óli Valur var að spila sinn fyrsta byrjunarliðs leik í kvöld. Þorvaldur var ánægður með frammistöðu hans í leiknum.

„Frammistaðan var mjög fín, hann kom vel inn og var duglegur. Óli er framtíðarleikmaður Stjörnunnar. Hann á eftir að spila marga leiki, þroskast og verða betri leikmaður,“ svaraði Þorvaldur.

Næsta verkefni Stjörnunnar er botnslagur gegn ÍA eftir einungis fjóra daga.

„Núna eru menn bara að klára þennan leik, á morgun vöknum við og förum á æfingu og undirbúum okkur fyrir ÍA,“ sagði Þorvaldur Örlygsson að lokum.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.