Sigur Leicester City á Man Utd þýðir að Man City er enskur meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luke Thomas skoraði gull af marki á 10. mínútu leiksins.
Luke Thomas skoraði gull af marki á 10. mínútu leiksins. EPA-EFE/Peter Powell

Leicester City vann 2-1 sigur á mikið breyttu liði Manchester United er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Sigurinn þýðir að Manchester City er enskur meistari tímabilið 2020/2021.

Manchester United var að spila þriðja leikinn af fjórum á aðeins sjö dögum og gerði Ole Gunnar Solskjær tíu breytingar á byrjunarliði sínu frá 3-1 sigrinum á Aston Villa á sunnudaginn var.

Amad Diallo og Anthony Elanga voru að byrja sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni en annars var byrjunarlið Man United ágætlega sterkt miðað við fjölda breytinga. David De Gea, Eric Bailly, Alex Telles, Nemanja Matic, Donny van de Beek, Juan Mata og Mason Greenwood voru til að mynda allir í byrjunarliðinu.

Það voru hins vegar gestirnir í Leicester City sem byrjuðu leikinn mun betur og strax á 10. mínútu áttu þeir frábæra sókn upp hægri vænginn. 

Hún endaði með því að Youri Tielemans skóflaði boltanum á fjær þar sem Luke Thomas kom askvaðandi og svoleiðis smellhitti boltann á lofti. Boltinn flaug upp í samskeytin fjær og staðan orðin 1-0 Leicester í vil. Sjá má boltann á leið í markið á myndinni efst í fréttinni.

Mason Greenwood jafnaði metin skömmu síðar þegar hann fékk boltann frá Amad innan vítateigs. Greenwood var umkringdur leikmönnum Leicester en náði einhvern veginn skoti úr þröngu færi og staðan allt í einu orðin 1-1.

Juan Mata fagnar marki Man United með markaskoraranum.EPA-EFE/Dave Thompson

Þannig var hún í hálfleik og þannig var hún einnig er Solskjær sendi Marcus Rashford og Edinson Cavani inn á. Á þeim tímapunkti áttu gestirnir hornspyrnu. Marc Albrighton tók spyrnuna inn á teig þar sem miðvörðurinn Çaglar Söyüncü stangaði boltann af öllu afli í netið og staðan orðin 2-1 Leicester í vil.

Enn og aftur er Man United að fá á sig mark eftir fast leikatriði og að þessu sinni kostaði það liðið stig. Þá varð markið einnig til þess að Manchester City er enskur meistari en United getur ekki náð nágrönnum sínum úr þessu.

Lokatölur á Old Trafford í kvöld 2-1 og fyrsti sigur Leicester City þar síðan árið 1998 staðreynd. Manchester United er enn í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 70 stig að loknum 35 leikjum. Leicester City er þar sæti fyrir neðan með 66 stig að loknum 36 leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.