Íslenski boltinn

Ungt lið og mikilvægt að þeim líði ekki eins og þetta sé allt þeim að kenna

Sindri Sverrisson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og Árni Freyr Guðnason fóru um víðan völl í Pepsi Max mörkunum í gærkvöld.
Margrét Lára Viðarsdóttir og Árni Freyr Guðnason fóru um víðan völl í Pepsi Max mörkunum í gærkvöld. stöð 2 sport

Margrét Lára Viðarsdóttir og Árni Freyr Guðnason voru sammála um það að Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, hefði átt að axla ábyrgð á 9-0 tapinu gegn Breiðabliki í stað þess að bauna á leikmenn sína.

Fylki er spáð 3. sæti í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í sumar en liðið beið afhroð í fyrsta leik, gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kópavoginum.

Eftir leik sagði Kjartan í sjónvarpsviðtali meðal annars að leikmenn hefðu ekki farið eftir fyrirmælum hans af hliðarlínunni.

„Þegar þú tapar 9-0 þá er augljóst að það er eitthvað að, en að skella því á leikmenn fyrir að hafa ekki fylgt plani finnst mér svolítið ódýrt,“ sagði Árni Freyr í Pepsi Max mörkunum á Stöð 2 Sport í gærkvöld. Innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max mörkin - Gagnrýni á þjálfara Fylkis

„Ég hefði viljað sjá Kjartan sem þjálfara taka ábyrgðina á þessu sjálfur. Hann velur liðið, hann ákveður hvernig það spilar. Þær pressa hátt lungann úr leiknum, það er langt á milli línanna. Hann segir að leikmenn hafi ekki farið eftir fyrirmælum af hliðarlínunni. Það er skrýtið. Ég held að hann eigi svolítið verk fyrir höndum,“ sagði Árni Freyr.

Kjartan með breitt bak og ætti að taka þetta á sínar herðar

Margrét Lára tók í svipaðan streng:

„Þetta er bara einn leikur, fyrsti leikur á móti, og auðvitað hefðu allir viljað betri úrslit og betri frammistöðu. En það þarf núna að þétta raðirnar og berja sjálfstraust í liðið. Ég hefði viljað sjá Kjartan taka þetta á sínar herðar, hann er með breitt bak, og gera leikmenn svolítið stikkfrí í gegnum þetta. Fara svo yfir málin inni í klefa. En menn verða bara að beita þeim aðferðum sem þeir gera. Nú er bara að halda áfram og þetta er alla vega lexía fyrir þær. Það er búið að setja pressu á þær með að þær verði í þessari toppbaráttu og við viljum ekki að þær guggni undan henni.“

Næsti leikur Fylkis er gegn Tindastóli í Árbænum á þriðjudagskvöld.

„Þær eru með ungt lið og mæta Tindastólsliði sem var óheppið að fá ekki þrjú stig. Tindastólskonur mæta því kannski með meira sjálfstraust en Fylkisliðið í næstu umferð. Þegar þú ert með ungt lið inni á vellinum, engan útlending, þá skiptir svo miklu máli fyrir þær að þær upplifi ekki að þetta sé allt þeim að kenna,“ sagði Árni Freyr og bætti við:

„Ef að þjálfarinn hefði tekið þetta á sig og sagst hafa valið vitlaust lið eða vitlaust kerfi, gætu þær mætt á næstu æfingu og haldið alla vega meira að þetta sé þjálfaranum að kenna en þeim sjálfum. Þegar öllu er á botninn hvolft ert þú inni á vellinum og þarft að leysa stöðurnar, en ég hefði viljað sjá þá [þjálfarana] aðstoða liðið sitt betur.“


Tengdar fréttir

„Þær fóru ekki eftir neinum fyrirmælum“

„Þetta var slæmt tap en líklegast lærdómsríkt. Við gerðum ansi mörg mistök sem að maður vill ekki sjá,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, eftir ótrúlegt 9-0 tap liðsins gegn Breiðabliki í fyrstu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.