Enski boltinn

Roma sparar Tottenham meira en einn og hálfan milljarð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho sést hér eftir að hann var rekinn frá Tottenham. Hann ætlaði að taka sér frí en réði sig svo til Roma.
Jose Mourinho sést hér eftir að hann var rekinn frá Tottenham. Hann ætlaði að taka sér frí en réði sig svo til Roma. Getty/ Jonathan Brady

Jose Mourinho var ekki lengi að finna sér nýtt starf eftir brottreksturinn frá Tottenham og það eru frábærar fréttir fyrir hans gömlu yfirmenn í London.

Nú lítur út fyrir að ráðning Mourinho til ítalska félagsins Roma muni spara Tottenham um það bil níu milljónir punda eða meira en einn og hálfan milljarð íslenskra króna.

ESPN og fleiri miðlar hafa þetta eftir heimildarmönnum sínum en Mourinho er vanur því að fá væna lokagreiðslu þegar hann er rekinn frá félagi. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist.

Mourinho og forráðamenn Tottenham áttu að hafa samið um að hann fengi tuttugu milljónir punda við starfslokin en samningur portúgalska stjórans átti að renna út sumarið 2022. Morurinho var með fimmtán milljónir punda í árslaun.

Heimildarmenn bandaríska miðilsins segja að í þessum starfslokasamningi hafi jafnframt verið klásúla um að Tottenham þyrfti ekki að greiða Mourinho þessa upphæð ef hann fengi nýtt starf á fyrrum gildistíma gamla samningsins.

Tottenham þyrfti þá bara að greiða það sem vantaði upp á svo að Mourinho fengi sömu laun og hann var með hjá Tottenham.

Mourinho er sagður fá 10,2 milljónir evra í árslaun hjá Roma fyrir skatt. Tottenham mun borga Jose þar til að samningur hans við Roma tekur gildi í sumar. Eftir það munu laun Mourinho hjá Roma (8,8 milljónir punda) fara upp í greiðsluna frá Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×