Erlent

Bjóst við sjö börnum en fæddi níu

Samúel Karl Ólason skrifar
Nokkur af börnunum níu.
Nokkur af börnunum níu. Heilbrigðisráðuneyti Malí

Kona fæddi nýverið níu börn, þó hún hafi bara átt von á sjö. Sónar hafði sýnt fram á að konan væri ólétt af sjö börnum en við fæðingu í gær reyndust þau níu. Fimm stúlkur og fjórir drengir og öllum heilsast víst vel.

Heilbrigðisráðuneyti Malí opinberaði fæðinguna merkilegu í gær. Móðirin, sem heitir Halima Cisse og er 25 ára gömul, er frá Malí en fæðingin fór fram á sjúkrahúsi í Marokkó. Börnin voru tekin með keisaraskurði.

Samkvæmt frétt BBC er bandarísk kona skráð í heimsmetabók Guinnes fyrir að hafa fætt átta lifandi börn árið 2009. Enginn á að hafa fætt fleiri börn.

Vitað er til þess að tvær konur hafi áður fætt níbura. Ein í Ástralíu árið 1971 og önnur í Malasíu árið 1999. Ekkert þeirra barna lifði þó lengur en í nokkra daga.

Ólétta Cisse hefur vakið mikla athygli í Malí. Hún var á sjúkrahúsi í Bamako, höfuðborg landsins, í tvær vikur en var svo flutt til Morokkó þann 30. mars. Eiginmaður hennar, Kader Arby, er enn í Malí með eldri dóttur þeirra hjóna.

Í samtali við BBC segist hann hafa verið i stöðugum samskiptum við Cisse. Þá segist hann ekki óttast að eignast svona mörg börn. Þau séu gjöf frá guði og hann muni sjá um þau.

Þá þakkaði hann íbúum og yfirvöldum Malí fyrir stuðninginn.

Búist er við því að Cisse og börn hennar tíu fari aftur til Malí eftir nokkrar vikur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×