Enski boltinn

Ryan Mason: Bale er í heimsklassa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gareth Bale og Ryan Mason eftir sigur liðsins gegn Sheffield United í dag.
Gareth Bale og Ryan Mason eftir sigur liðsins gegn Sheffield United í dag. Justin Setterfield/Getty Images

Ryan Mason, tímabundinn stjóri Tottenham, hrósaði Gareth Bale í hástert eftir sigur liðsins gegn Sheffield United. Bale fékk ekki mikinn spiltíma undir Jose Mourinhho, en þakkaði traustið með þrennu 4-0 sigri í dag.

„Ég var ánægðastur með hugarfarið og keppnisskapið,“ sagði Ryan Mason eftir leikinn. „Við réðumst á alla bolta og höfðum mikinn vilja til að berjast allan leikinn. Það kom kafli þar sem þeir sköpuðu færi og gerðu hlutina erfiða fyrir okkur, en við stóðum saman.“

Þó að Mason hafi reynt að einblína á liðsheildina var það þrenna Gareth Bale sem stóð upp úr í leiknum.

„Eðlilega beinist athyglin að þér þegar þú skorar þrennu. Bale er í heimsklassa, við vitum það. Allir sem hafa horft á fótbolta síðustu tíu ár vita hvað hann getur gert á seinasta þriðjungi vallarins og hann sýndi það í kvöld.“

Bale er á láni hjá Tottenham frá Real Madrid út tímabilið, en Mason vildi ekki tjá sig um það hvort að liðið myndi reyna að halda Bale lengur.

„Það er samtal sem við verðum að eiga í lok tímabilsins. Forgangsatriðið hjá okkur núna er Leeds. Það er æfingavika framundan fyrir þann leik og það er það sem við einblínum á.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.