Innlent

Hótel Klettur nýtt sóttkvíarhótel frá og með deginum í dag

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hótel Klettur við Mjölnisholt í Reykjavík.
Hótel Klettur við Mjölnisholt í Reykjavík. Já.is

Í dag opnar Rauði krossinn nýtt sóttkvíarhótel á Hótel Kletti við Mjölnisholt í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum en hótelið er það þriðja í Reykjavík sem notað verður í þessum tilgangi og það fjórða á landinu öllu. 

Þegar hefur Rauði krossinn umsjón með sóttkvíarhótelum á Fosshótel Reykjavík við Þórunnartún, Hótel Storm og Hótel Hallormsstaðarskógi. Eins hefur Rauði krossinn annast farsóttarhúsið við Rauðarárstíg undanfarið ár. 

Útlit var fyrir að að óbreyttu myndu sóttkvíarhótel fyllast í ljósi þess að farþegum sem koma til landsins sem þurfa reglum samkvæmt að sæta sóttkví á sóttvarnahóteli farið fjölgandi. Í nótt voru um fjögur hundruð gestir á sóttkvíarhótelunum tveimur sem fyrir voru í Reykjavík og eru aðeins örfá herbergi laus þar sem stendur að því er segir í tilkynningunni. 

„Í dag koma átta farþegavélar til landsins, sú fyrsta lenti í morgun og sjö eru væntanlegar síðar í dag, þar af tvær frá hááhættusvæðum með nýgengi smita yfir 700. Með tilkomu sóttkvíarhótelsins á Hótel Kletti bætast 84 herbergi við það framboð og Rauði krossinn þar með betur í stakk búinn til að taka á móti þeim gestafjölda sem búast má við í dag og næstu daga,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×