Erlent

Aldrei fleiri dauðsföll á einum degi

Sylvía Hall skrifar
Heilbrigðisstofnanir á Indlandi eru komnar að þolmörkum.
Heilbrigðisstofnanir á Indlandi eru komnar að þolmörkum. Getty/Sonu Mehta

Alls létust 3.689 manns úr kórónuveirunni á Indlandi í gær. Er þetta mesti fjöldi sem hefur látist í landinu á einum degi frá því að faraldurinn hófst og fundaði forsætisráðherra landsins með heilbrigðisráðherranum í morgun til að fara yfir stöðu mála.

Faraldurinn hefur verið í miklum vexti á Indlandi undanfarnar vikur og mánuði og er staðan á sjúkrahúsum landsins þung. Heilbrigðisstarfsmenn reyna eftir bestu getu að sinna sjúklingum á sama tíma og þeir horfa fram á mikinn skort á súrefni og sjúkrarúmum.

Líkhús og líkbrennslur eru nú yfirfullar en fyrr í vikunni óskaði lögreglan í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, eftir því að borgaryfirvöld myndu útvega fleiri lóðir og aðstöðu fyrir líkbrennslur þar sem ekki væri útlit fyrir að núverandi fjöldi gæti staðið undir álaginu.

Á sjúkrahúsum hafa ættingjar grátbeðið um aðstoð fyrir ástvini sína, en í gær létust tólf á Batra-sjúkrahúsinu eftir að súrefnið kláraðist í annað skiptið í vikunni. Talið er að mikill fjöldi fólks hafi látist eingöngu vegna þess að ekki er nægilegt súrefni á sjúkrahúsum.

Yfirvöld hafa hrundið af stað bólusetningarátaki og býðst nú öllum fullorðnum bólusetning. Nokkur svæði hafa þó lýst yfir áhyggjum af því að ekki sé nóg af bóluefni fyrir alla og hefur verið ákveðið að fresta útflutningi á bóluefni AstraZeneca, sem framleitt er í landinu, til þess að mæta innlendri eftirspurn.


Tengdar fréttir

Sjá fram á skort á bólu­efni og súr­efni sam­hliða versnandi stöðu far­aldursins

Tæplega 3.600 létust af völdum Covid-19 á Indlandi síðastliðinn sólarhring. 400 þúsund greindust með veiruna á einum degi, en er það í fyrsta skipti sem það gerist í einu landi. Indland hefur farið einna verst út úr kórónuveirufaraldrinum, en rúmlega 19 milljónir hafa greinst með veiruna þar í landi frá upphafi faraldursins.

Tak­marka ferða­lög frá Ind­landi til Banda­ríkjanna

Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að takmarka ferðalög frá Indlandi til Bandaríkjanna vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi í næstu viku. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna er sögð hafa mælt með aðgerðunum til að koma í veg fyrir að smit berist til Bandaríkjanna.

Skortur á bóluefnum í héruðum Indlands

Nokkur ríki Indlands eru uppiskroppa með bóluefni, degi áður en bólusetningarátak á að hefjast í landinu. Samkvæmt opinberum tölum hafa 7,7 milljónir manna fengið Covid-19 í síðustu tveimur mánuðum. Áður tók það nærri því hálft ár að greina 7,7 smitaða á Indlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×