Enski boltinn

Snið­ganga sam­fé­lags­miðla til að vekja at­hygli á hatur­s­orð­ræðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ensk knattspyrnufélög munu sniðganga samfélagsmiðla um helgina.
Ensk knattspyrnufélög munu sniðganga samfélagsmiðla um helgina. Getty Images

Ýmis knattspyrnufélög ásamt leikmönnum og þjálfurum munu sniðganga samfélagsmiðla um helgina til að vekja athygli á þeirri hatursorðræðu og kynþáttaníði sem fær að viðgangast þar.

Á sunnudag mætast Manchester United og Liverpool í einum stærsta leik enskar knattspyrnu. Venjulega myndi það þýða að samfélagsmiðlar beggja félaga yrðu stútfullir af allskyns efni.

Ekki þessa helgi.

Öll félög ensku úrvalsdeildarinnar ásamt fjölda leikmanna verða fjarri góðu gamni á samfélagsmiðlum um helgina.

Ástæðan er sú að bæði félög og leikmenn hafa fengið nóg af þeirri hatursorðræðu sem og kynþáttaníði sem viðgengst á samfélagsmiðlum í dag. 

Fjöldinn allur af leikmönnum hefur orðið fyrir barðinu á kynþáttaníði undanfarið og rannsóknir sýna að það hefur aukist gríðarlega undanfarin misseri. Til að mynda segir Manchester United að áreiti, hatursorðræða og kynþáttaníð hafi aukist um 350 prósent síðan í september 2019.

Vilja félögin – og leikmenn þeirra – vekja athygli á þeirri orðræðu sem fær að grassera á samfélagsmiðlum en kallað hefur verið eftir því að stjórnendur samfélagsmiðla á borð við Facebook, Twitter og Instagram setji upp regluverk sem gerir það að verkum að fólk geti ekki tjáð sig undir fölsku nafni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.