Erlent

Biden boðar von um betri tíð eftir faraldur og kreppu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þetta verður í fyrsta skipti sem Joe Biden ávarpar Bandaríkjaþing frá því að hann tók við embætti forseta 20. janúar.
Þetta verður í fyrsta skipti sem Joe Biden ávarpar Bandaríkjaþing frá því að hann tók við embætti forseta 20. janúar. AP/Patrick Semansky

Efnahagsbati eftir kórónuveirufaraldurinn verður efst á baugi í fyrsta ávarpi Joes Biden Bandaríkjaforseta fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings í kvöld. Í ávarpinu ætlar forsetinn að lýsa því hvernig Bandaríkin eru „komin aftur af stað“ og hvernig hann sér fyrir sér að alríkisstjórnin geti bætt líf landsmanna.

Biden ætlar að tala um hvernig hann tók við „þjóð í kreppu“ þegar hann varð forseti. Verstu farsótt í heila öld, verstu efnahagskreppu frá því í Kreppunni miklu og verstu árás á lýðræðið frá því í bandaríska borgarastríðinu. Vísar Biden þar til árásar stuðningsmanna Donalds Trump, fyrrverandi forseta, á þinghúsið í janúar.

„Nú, eftir aðeins hundrað daga, get ég greint þjóðinni frá því að Bandaríkin eru komin aftur af stað,“ ætlar að Biden að segja samkvæmt útdrætti sem Hvíta húsið birti í dag

„Breytingum hættu í möguleika. Kreppu í tækifæri. Bakslagi í styrkleika,“ ætlar forsetinn að segja.

Til þess að koma Bandaríkjunum út úr efnahagslægðinni sem fylgdi faraldrinum ætlar Biden að leggja áherslu á metnaðarfulla áætlun sína um uppbyggingu innviða og atvinnuuppbyggingu, að sögn Washington Post. Auk þess ætlar Biden að lýsa tillögum sínum að stórauknum framlögum til leikskóla, dagvistunar, háskólamenntunar og barnabóta.

„Við verðum að sanna að lýðræðið virkar ennþá. Að ríkisstjórnin virki ennþá og að hún geti staðið undir væntingum þjóðarinnar,“ ætlar Biden að segja.

Ávarp Biden í kvöld er ekki eiginleg stefnuræða. Vanalega hafa forsetar haldið ræðu fyrir báðum deildum þingsins við upphaf kjörtímabils síns en Biden frestaði því þar til nú. 

Þá setur kórónuveirufaraldurinn mark sitt á ræðuna. Þingmenn verða með grímur og þurfa að halda fjarlægð. Aðeins tvö hundruð manns mega vera í þingsalnum en 535 þingmenn eiga sæti í báðum deildum. AP-fréttastofan segir að margir þingmenn repúblikana ætli ekki að mæta.

Ræða Biden hefst klukkan eitt að íslenskum tíma í nótt. Hægt er að horfa á hana í spilaranum hér fyrir neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.