Íslenski boltinn

Segist hvorki hafa tæklað neinn harka­lega né kýlt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, og Ísak Snær.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, og Ísak Snær. ÍA

Fyrr í kvöld greindi Vísir frá því að æfingaleikur KR og ÍA í knattspyrnu hefði verið flautaður af þegar stundarfjórðungur var til leiksloka þar sem mönnum var svo heitt í hamsi. Ísak Snær Þorvaldsson segir málið vera blásið allverulega upp.

Í stöðunni 3-0 kom upp atvik þar sem átti að hafa soðið upp úr. Leikmaður ÍA átti þá að hafa sparkað í mann og annan. 

Þórður Már Gylfason, dómari leiksins, á að hafa flautað af í kjölfarið þar sem það gekk illa að róa mannskapinn.

Umræddur leikmaður var Ísak Snær Þorvaldsson, miðjumaður ÍA. Hann segir málið blásið upp og þvertekur fyrir að hafa slegið leikmann KR líkt og Kristján Óli Sigurðsson, reglulegur gestur í hlaðvarpinu Dr. Football, sagði á Twitter.

„Ég kýli aldrei leikmann KR. Hann ætlaði að keyra inn í mig vegna þess hann var pirraður yfir einhverju sem gerðist áður. Ég hoppa fyrir aftan hann og reyni að ýta honum frá mér, ef ég fór í andlitið á honum þá var það ekki ætlunin," segir Ísak Snær í viðtali við Fótbolti.net nú í kvöld.

Einnig sagði Ísak Snær að hann hefði ekki „straujað“ vinstri bakvörð KR-inga.

„Hann ætlaði að hlaupa í gegn fyrir aftan mig, það eina sem ég geri er að stíga til hliðar og láta hann hlaupa á mig. Mér hefur verið sagt að gera það síðan ég var 15 ára og það hefur aldrei verið dæmt á það. Ef að leikmaðurinn meiddist eitthvað við það þá biðst ég bara afsökunar á því,“ bætti miðjumaðurinn ungi við.

„Ætlaði bara að skokka í stöðuna mína og halda áfram með leikinn, þá komu tveir KR-ingar og byrja að ýta í mig. Eina sem ég geri er að svara fyrir mig. Einn af þeim baðst síðan afsökunar og við sættumst. Ég ber virðingu fyrir því," segir Ísak að lokum. 

Þá tók hann fram að bæði lið hafa viljað klára leikinn en dómarinn hafi einfaldlega ekki verið sammála.

Pepsi Max-deildin fer af stað 30. apríl með leik Vals og ÍA á Hlíðarenda. Íþróttadeild Vísis spáir því að ÍA endi í 11. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×