Erlent

Hand­teknir grunaðir um aðild að mann­ráni á átta ára stúlku

Sylvía Hall skrifar
Stúlkan var tekin af heimili ömmu sinnar á þriðjudag.
Stúlkan var tekin af heimili ömmu sinnar á þriðjudag. Getty

Fjórir menn eru nú í haldi frönsku lögreglunnar vegna gruns um aðild að þaulskipulögðu mannráni á átta ára stúlku. Stúlkan heitir Mia og er talin vera með móður sinni, sem lögreglu grunar að hafi fyrirskipað mannránið.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Mennirnir fjórir, sem eru á aldrinum 23 til 60 ára, segjast hafa verið fengnir til verksins á Internetinu en þeir eiga engan sakaferil að baki. 

Móðir Miu, hin 28 ára gamla Lola Montemaggi, er talin hafa farið með stúlkuna úr landi en hún missti forræðið eftir að hafa sagst vilja „lifa á jaðri samfélagsins“ og láta sig hverfa. Síðan þá hefur amma stúlkunnar verið með forræði.

Mia var því hjá ömmu sinni þegar hún var tekin. Þrír menn komu á heimili þeirra á þriðjudag, sögðust vera frá barnaverndaryfirvöldum og tóku Miu með sér. Við húsleit á heimili eins sakbornings fannst handrit sem talið er að þeir hafi stuðst við þegar þeir tóku stúlkuna af heimilinu.

Að sögn yfirvalda beittu mennirnir ekki valdi þegar stúlkan var tekin, en lögregla fann þó efni sem er notað við sprengjugerð við húsleit annars sakbornings.

Franska lögreglan lýsti eftir stúlkunni á landsvísu eftir að tilkynnt var um mannránið en tilkynningin var síðar dregin til baka. Þá hefur yfirvöldum í Þýskalandi, Sviss og Belgíu verið gert viðvart.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×