Innlent

Freyja metin hæf til að taka að sér fósturbarn

Eiður Þór Árnason skrifar
Freyju Haraldsdóttir sótti fyrst um að fá að taka barn í fóstur árið 2014.
Freyju Haraldsdóttir sótti fyrst um að fá að taka barn í fóstur árið 2014. Oddvar Hjartar

Barnaverndarstofa hefur metið Freyju Haraldsdóttir, fyrrverandi varaþingmann og baráttukonu fyrir réttindum fatlaðra, hæfa til að taka að sér fósturbarn.

Freyja greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni nú í kvöld en málið á sér langan aðdraganda. Árið 2014 sótti hún um að gerast varanlegt fósturforeldri en var hafnað af Barnaverndarstofu ári síðar áður en hún fékk tækifæri til að sitja matsnámskeið.

Í júní 2018 hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfum Freyju um að fella úr gildi úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Barnaverndarstofu en í mars 2019 sneri Landsréttur við dómi héraðsdóms. 

Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að Freyju hafi verið mismunað vegna fötlunar og ógilti þar með ákvörðun Barnaverndarstofu um að synja umsókn hennar án þess að gefa henni kost á að fara í gegnum hefðbundið umsóknarferli. Í október sama ár staðfesti Hæstiréttur dóm Landsréttar.

„Þetta tókst. Loksins!!!“ skrifar Freyja í Facebook-færslu sinni.

Við st(g)uðsonur minn tilkynnum hér með að Barnaverndarstofa hefur komist að dottlu sem við höfum alltaf vitað! Eftir...

Posted by Freyja Haraldsdóttir on Monday, April 12, 2021

Freyja ræddi málið í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 árið 2019, áður en málið fór fyrir Landsrétt. Þar sagði hún meðal annars að fólk gerði sér ekki grein fyrir hvers hún væri megnug. 

Staðreyndin væri sú að hún hefði mikla reynslu af umönnun barna, unnið í um áratug á leikskóla og ætti stóra fjölskyldu sem myndi hjálpa til. Þá væri það niðurlægjandi og sárt að vera ein örfárra sem fengju ekki að sitja matsnámskeið Barnaverndarstofu.


Tengdar fréttir

Freyja heldur ótrauð áfram

Landsréttur sneri í gær við dómi héraðsdóms í máli Freyju og Barnaverndarstofu þar sem henni hafði verið meinað að gerast fósturforeldri. Freyja fær nú að sitja námskeið þar sem hæfni hennar til að gerast fósturforeldri verður metin.

Freyja sigraði í Landsrétti

Landsréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu og er niðurstaðan sú að Freyju hafi verið mismunað vegna fötlunar. Landsréttur kvað upp dóm sinn klukkan 14:00 í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.