Erlent

Sextíu ár síðan Gagarín var skotið út í geim

Samúel Karl Ólason skrifar
Júrí Gagarín, í geimbúningi sínum eftir að honum var skotið út í geim árið 1961.
Júrí Gagarín, í geimbúningi sínum eftir að honum var skotið út í geim árið 1961. Vísir/Getty

Í dag eru sextíu ár liðin frá því Júrí Gagarín varð fyrsti maðurinn til að fara út í geim. Honum var skotið á loft frá Sovétríkjunum þann 12. apríl 1961 og varði 108 mínútum í geimnum.

Hinn 27 ára gamli Gagarín fór einn hring um jörðu og stökk síðan úr geimfari sínu og lenti með fallhlíf á kartöfluakri við borgina Engels skammt frá ánni Volgu í Rússlandi. Þar voru þær Rita Nurskanova, sem var fimm ára, og amma hennar.

Hér má sjá myndefni frá geimskotinu sjálfu.

Moscow Times segir að í viðtali hafi Nurskanova sagt frá því að amma hennar hafi lagst á bæn og viljað hlaupa á brott þegar þær sáu Gagarín svífa til jarðar. Hann hafi þó róað þær niður, staðhæft að hann væri mennskur og þær hafi hjálpað honum að losa hjálm hans.

Gagarín var hylltur sem hetja Sovétríkjanna en fjórum árum áður hafði ríkið verið fyrst til að senda gervihnött á braut um jörðu.

Hann dó í flugslysi sjö árum seinna.

Hér má sjá ávarp sem Gagarín veitti ári eftir geimskotið.

Mikill fögnuður hefur farið fram í Rússlandi í dag og ferðaðist Vladímír Pútín, forseti Rússlands, til Engels, þar sem Gagarín lenti, og heimsótti minnisvarða sem þar var reistur.

Fjórir Rússar eru nú um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni og segir í frétt Moscow Times að þeir hafi sent kveðjur til jarðarbúa í dag og hyllt afreki Gagaríns.

Hér má sjá stutt myndband frá Roscosmos, Geimvísindastofnunar Rússlands, sem inniheldur meðal annars kveðjur frá fjórum rússneskum geimförum sem eru um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni.

Hér má sjá kveðju frá geimfaranum Ivan Vagner í tilefni dagsins.

Geimiðnaður Rússlands á í ákveðnum vandræðum um þessar mundir. Dregið hafi úr fjárveitingum og hneykslismál hafi komið upp, svo eitthvað sé nefnt.

Með notkun hinna áreiðanlegu Soyuz eldflauga hafa Rússar einir sent menn til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar en ríkið hefur þó átt í erfiðleikum með að halda í við tækniþróun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×