Innlent

Baron nýtist ekki sem sótt­kvíar­hótel

Vésteinn Örn Pétursson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Hótel Baron verður ekki nýtt sem sóttkvíarhótel, líkt og til stóð.
Hótel Baron verður ekki nýtt sem sóttkvíarhótel, líkt og til stóð. Vísir/Helena Rakel

Hótel Baron við Barónsstíg mun ekki nýtast sem sóttkvíarhótel eftir að hótelið við Þórunnartún fyllist. Þetta staðfestir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, í samtali við Vísi.

Hann segir að í ljós hafi komið að húsnæði Baron myndi ekki nýtast, vegna framkvæmda sem standa þar yfir, en vildi ekki gefa upp hvaða hótel yrði nýtt í staðinn. Sjúkratryggingar Íslands vinni að því að finna nýju sóttkvíarhóteli stað.

Áður hafði verið greint frá því að sóttkvíarhótelið við Þórunnartún væri að fyllast og að Baron yrði tekið í gagnið í dag.

Gylfi segir þó í samtali við fréttastofu að ólíklegt sé að sóttkvíarhótelið við Þórunnartún fyllist í dag, þar sem færri hafi komið hingað til lands en búist var við. Ef það gerist verði notast við hótel við Rauðarárstíg til að brúa bilið, uns nýtt húsnæði hefur fundist.

Nú dvelji 258 manns á hótelinu en 72 herbergi séu enn laus. Hann gerir þó ráð fyrir að opna þurfi nýtt hótel á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×