Erlent

Segir „ögranir“ Rússa geta leitt til átaka

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu virða sækja eigur sínar úr rústum húsa sem urðu fyrir sprengjuregni í gær. Aukin spenna er hlaupin í átökin á svæðinu og Rússar safna liði á landamærunum.
Íbúar á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Austur-Úkraínu virða sækja eigur sínar úr rústum húsa sem urðu fyrir sprengjuregni í gær. Aukin spenna er hlaupin í átökin á svæðinu og Rússar safna liði á landamærunum. Vísir/AP

Varnarmálaráðherra Úkraínu segir að stjórnarherinn gæti dregist inn í harðari átök í austurhluta landsins vegna ögrana Rússa. Vaxandi spenna er nú í Úkraínu vegna vaxandi vígbúnaðar Rússa nærri landamærunum.

Stjórnvöld í Kænugarði og vestrænir bandamenn þeirra óttast að Rússar búi sig nú undir vopnaða innrás í austanverða Úkraínu. Þeir hafa safnað liði nærri landamærum ríkjanna og þá hafa skærur á milli uppreisnarmanna sem eru hliðhollir Rússum og ráða ríkjum í Donbass-héraði og úkraínska stjórnarhersins færst í aukana að undanförnu.

Andrí Taran, varnarmálaráðherra Úkraínu, segir aðeins ákvörðun um það á æðstu stigum stjórnvalda í Kreml geti skýrt aukinn ágang Rússa við Úkraínu. Ögranir Rússa gætu egnt Úkraínumenn út í átök í Donbass, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir honum.

Rússnesk stjórnvöld, sem hafa stutt við uppreisnarmennina í Austur-Úkraínu um árabil, hafna því að ógn stafi af hermönnum þeirra. Þau muni verja „borgara“ sína í Austur-Úkraínu ef átökin þar fara harðnandi og þeim sé frjálst að senda hermenn þangað sem þau vilja innan Rússlands.

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Frakklands og Þýskalands hvöttu Rússa til að stöðva liðsflutninga sína að landamærum Úkraínu í gær. Lýstu þeir jafnframt stuðningi við ríkisstjórn Úkraínu í deilum hennar við Rússa.

Fleiri en fjórtán þúsund manns hafa fallið í átökunum í Austur-Úkraínu sem hófust eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Rússar hafa alla tíð neitað því að hermenn þeirra berjist í Austur-Úkraínu.

Átylla stjórnvalda í Kreml fyrir innlimun Krímskaga var að þau þyrftu að verja rússneskumælandi íbúa svæðisins. Reyndu Rússar að veita innlimuninni lögmæti eftir á með því að boða til íbúakosningar. 


Tengdar fréttir

Rússar óttast að borgar­stríð brjótist út í Úkraínu

Yfirvöld í Rússlandi segjast óttast það að átök muni brjótast út af fullum krafti að nýju í austurhluta Úkraínu. Rússar segjast þegar hafa hafið undirbúning á því að vernda rússneskan almenning á svæðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.