Totten­ham varð af mikil­vægum stigum í bar­áttunni um Meistara­deildar­sæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane skoraði tvívegis í dag en er hér að leita að stigunum sem Tottenham tapaði þar sem Newcastle jafnaði metin seint í leiknum.
Harry Kane skoraði tvívegis í dag en er hér að leita að stigunum sem Tottenham tapaði þar sem Newcastle jafnaði metin seint í leiknum. EPA-EFE/Peter Powell

Newcastle United og Tottenham gerðu 2-2 jafntefli er liðin mættust á St. James´s Park í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Joelinton kom Newcastle yfir á 28. mínútu en Harry Kane jafnaði eftir glæpsamlegan varnarleik heimamanna skömmu síðar. Kane bætti svo við öðru marki sínu og öðru marki Tottenham á 34. mínútu.

Staðan orðin 2-1 gestunum í vil og þannig var hún í hálfleik. Í síðari hálfleik lögðust Tottenham til baka og buðu hættunni einfaldlega heim. Á endanum fór það svo að Newcastle jafnaði en Joseph Willock þrumaði knettinum í slá og inn þegar aðeins fimm mínútur voru til leiksloka.

Staðan orðin 2-2 en það var eins og leikmenn Tottenham væru einfaldlega að bíða eftir jöfnunarmarkinu þar sem Newcastle fékk fjölda færa til að jafna metin. Alls áttu heimamenn yfir 20 skot í leiknum þó ekki öll þeirra hafi ratað á markið.

Mikilvægt stig fyrir Newcastle í fallbaráttunni en Tottenham hefði komist í Meistaradeildarsæti með sigri. 

Þess í stað eru lærisveinar José Mourinho í 5. sæti með 49 stig, tveimur minna en Chelsea sem er sæti ofar. Newcastle er í 17. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira