Í hlaðvarpinu í The Mike Show ýjaði Guðjón að því að Gylfi Þór Sigurðsson hefði ekki gefið kost á sér í landsliðið vegna meinta deilna við Eið Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara liðsins.
Allir tengdir landsliðinu og Gylfi sjálfur hafa vísað þessum ummælum landsliðsþjálfarans fyrrverandi til föðurhúsanna og sagt þau röng. Aron Einar gerði það líka á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Liechtenstein á morgun.
„Þetta er meira skítkast. Ég veit ekki hvað skal segja um það. Auðvitað hikstar liðið og þá reynir fólk að finna einhverja punkta til að tala um og ræða,“ sagði Aron Einar.
„En að koma með svona sögu út í loftið, sem er ekki rétt, er galið og kjánalegt.“
Aron Einar barmar sér samt ekki undan gagnrýni á frammistöðu íslenska liðsins.
„Það er allt í lagi að gagnrýna okkur og við eigum það skilið. Að rýna til gagns er mikilvægt fyrir okkur og allt það en að búa til sögur sem eru ekki sannar til að auglýsa eitthvað er fáránlegt,“ sagði Aron Einar.
Akureyringurinn segir að íslenska liðið standi saman, í blíðu og stríðu.
„Við erum ein heild sem þarf að stíga upp. Við þurfum að gera það innan hópsins. Það gerir það enginn annar fyrir okkur. Þegar eitthvað bjátar á og við stöndum okkur ekki eins vel og við viljum er undir okkur komið að stíga upp. Það sýnir karakter hvernig liðið svarar slæmum úrslitum og við ætlum að gera það. Við þurfum að gera það inni á vellinum og sýna það í verki,“ sagði Aron Einar.
Ísland er án stiga eftir fyrstu tvo leikina í undankeppni HM og markatöluna 0-5.