Erlent

Kalla til fleiri dráttar­báta og vilja forðast að af­­ferma skipið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Skipið er fast. Pikkfast.
Skipið er fast. Pikkfast. Gervihnattamynd/2021 Maxar Technologies.

Búið er að kalla út tvo dráttarbáta til viðbótar við þá sem fyrir eru í Súes-skurðinum, til þess að reyna að losa hið 220 þúsund tonna flutningaskip Ever Given, sem situr nú fast og lokar skurðinum fyrir alla umferð. Svo kann að fara að afferma þurfi skipið.

Skipið, sem er yfir 400 metrar að lengd festist síðastliðinn þriðjudag í þrengsta hluta skurðarins. Síðan þá hafa engin skip komist í gegnum skurðinn, sem liggur í gegn um Egyptaland, og er helsta skipaflutningaleiðin milli Evrópu og Asíu.

Meðalverðmæti varnings  sem fer að jafnaði í gegnum skurðinn er metið á um níu milljarða Bandaríkjadala á dag, eða yfir eitt þúsund og eitt hundruð milljarða króna. Yfir þrjú hundruð skip bíða þess nú að geta siglt í gegnum skurðinn.

AP-fréttaveitan hefur eftir háttsettum starfsmanni hafnaryfirvalda í skurðinum að í dag verði gerð tilraun til þess að losa skipið þegar tekur að flæða inn. Líklegt er að afferma þurfi skipið, í það minnsta að hluta. Yfirvöld hafa litið á það sem lokaúrræði, þar sem líklegt er að það bæti að minnsta kosti fáeinum dögum við þann tíma sem skurðurinn verður lokaður.

Rannsóknir benda hver í sína átt

Í gær sagði Osama Rabei, yfirmaður hafnaryfirvalda hjá Súes-skurðinum að sviptivindar væru líklega ekki eina ástæða þess að skipið strandaði, en því hefur verið haldið fram af ýmsum sérfræðingum. Kvaðst Rabei ekki geta útilokað að mannleg mistök eða tæknileg bilun hefðu valdið því að skipið strandaði.

Fyrirætkið Bernard Schulte, sem fer með rekstur Ever Given, hefur ítrekað að frumniðurstöður úr rannsókn á vegum fyrirtækisins bendi ekki til þess að bilun í tækjabúnaði skipsins hafi valdið því að skipið festist. Minnst ein skýrsla byggð á annarri rannsókn bendir þó til þess að skipið hafi skyndilega orðið rafmagnslaust þegar það strandaði.

AP-hefur eftir Rabei að hann vonaði að ekki kæmi til affermingar skipsins en bætti því við að um væri að ræða erfiða stöðu. Hann kvaðst þá ekki vita hvenær skipið yrði losað.

„Ég get ekki sagt það, af því ég veit það ekki.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×