Innlent

Á annan tug með réttarstöðu sakbornings í umfangsmiklu fíkniefna- og fjársvikamáli

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Vel á annan tug manna eru með réttarstöðu sakbornings og tveir eru í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikils fíkniefna- og fjársvikamáls sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar.  Húsleit hefur verið gerð á öðrum tug staða, bæði á heimilum og í fyrirtækjum vegna málsins.

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir þann 12. mars síðastliðinn og í framhaldi úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við rannsóknina sem er mjög umfangsmikil. 

„Þetta er talsvert stórt mál. Við höfum verið með þetta mál til rannsóknar í marga mánuði og umfangið hefur verið talsvert,“ segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Um sé að ræða skipulagða brotastarfsemi. „Við erum að tala um innflutning, sölu, dreifingu og framleiðslu á sterkum fíkniefnum, sem og mál er snertir fjármunabrot og þjófnaðarbrot,“ segir Margeir. 

Klippa: Viðtal við Margeir vegna skipulagðrar glæpastarfsemi

Í framhaldi aðgerða lögreglu hafa vel á annan tug einstaklinga verið handteknir og eru með réttarstöðu sakbornings í tenglsum við málið. Margeir segir að um sé að ræða Íslendinga og útlendinga, allt karlmenn. 

Húsleit hefur verið gerð á öðrum tug staða, bæði á heimilum og í fyrirtækjum vegna málsins. Hald hefur verið lagt á eignir og peninga fyrir tugi milljóna króna. 

Þá hafa um þrjú kíló af sterkum fíkniefnum verið gerð upptæk í tengslum við málið á síðustu vikum en unnið er að því að  skoða tengsl við fíkniefnaframleiðslur sem þegar hefur verið komið upp um.

Grunur leikur á að illa fengnu fé, vegna brotastarfseminnar, hafi verið komið inn í löglega atvinnustarfsemi hér á landi og því er um ætlað peningaþvætti að ræða. Margeir vill ekki greina frá því hvers konar fyrirtæki um ræðir.

Hvað erum við að tala um háar fjárhæðir í þessu máli? „Í þessu máli má ætla að við séum að tala eitt um 60 til 70 milljónir varðandi þjófnaðinn og fjármunabrotin,“ segir Margeir. 

Rannsókn málsins miðar vel og er á lokametunum. Lögreglan hefur notið aðstoðar lögreglunnar á Suðurlandi, Vestmannaeyjum, Suðurnesjum, Norðurlandi. Einnig hefur hún notið aðstoðar ríkislögreglustjóra og tollgæslunnar. Þá hefur hún verið í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld vegna málsins. 

Málið tengist manndrápinu í Rauðagerði ekki á nokkurn hátt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.