Enski boltinn

Gerrard: Enska landsliðið henti besta hægri bakverði landsins út úr liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold hefur átt erfitt tímabil hjá Liverpool og missti fyrir vikið sæti sitt í enska landsliðinu.
Trent Alexander-Arnold hefur átt erfitt tímabil hjá Liverpool og missti fyrir vikið sæti sitt í enska landsliðinu. Getty/John Powell

Steven Gerrard var mjög hissa að sjá það að Trent Alexander-Arnold var ekki valinn í enska landsliðshópinn fyrir komandi leiki í undankeppni HM.

Landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate valdi Liverpool bakvörðinn ekki i 26 manna hóp sinn fyrir leiki á móti San Marinó, Albaníu og Póllandi.

Hinn 22 ára gamli Trent Alexander-Arnold var valinn hægri bakvörðurinn í heimsliðinu í fyrra og hefur verið fastamaður í enska landsliðinu frá 2018. Southgate sagði að hann væri ekki að spila vel og þess vegna væri hann ekki í liðinu.

Það vantar ekki samkeppnina í hægri bakvarðarstöðu enska landsliðsins því í staðinn gat Southgate valið þá Kyle Walker hjá Manchester City, Kieran Trippier hjá Atletico Madrid og Reece James hjá Chelsea.

Steven Gerrard er nú knattspyrnustjóri Rangers en hann var leikmaður Liverpool í sautján ár. Gerrard segir að nú sé mikilvægt að standa við bakið á Alexander-Arnold og hjálpa honum aftur af stað.

„Ég tel að Trent sé besti hægri bakvörðurinn í landinu,“ sagði Steven Gerrard í viðtölum við breska miðla en ESPN segir frá.

„Eitt sem ég hef lært frá mínum spiladögum er að þú getur aldrei verið alltaf tíu af tíu mögulegum. Þegar þú dettur aðeins niður þá þarftu að fá stuðning, ást og athygli frá stjóranum þínum umfram allt annað,“ sagði Gerrard.

„Þessi ákvörðun kom mér á óvart en það er bara mín skoðun og hún skiptir ekki máli. Gareth Southgate tekur þessa ákvarðanir. Ég er ekki sammála þessari ákvörðun en ég er ekki enski landsliðsþjálfarinn,“ sagði Gerrard.

Trent Alexander-Arnold hefur átti erfitt tímabil eins og margir leikmenn Englandsmeistara Liverpool. Fyrir vikið á liðið ekki lengur möguleika á því að verja titilinn og þarf ótrúlegan endasprett til að ná Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×