Erlent

Ekki fleiri nýsmitaðir á Indlandi í fjóra mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Smituðum hefur fjölgað nokkuð á Indlandi.
Smituðum hefur fjölgað nokkuð á Indlandi. Ap/Channi Anand

Heilbrigðismálaráðuneyti Indlands segir 43.846 manns hafa greinst smitaða af Covid-19 undanfarin sólarhring. Fjöldi nýsmitaðra hefur ekki verið hærri í fjóra mánuði og hefur aukningin leitt til hertra samkomutakmarkana víða.

Rúmur helmingur nýsmitaðra á Indlandi greindist í Maharashtra-héraðs en þar hefur verið gripið til samkomutakmarkana og handahófsskimunar.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar hefur smituðum farið hratt fjölgandi í sjö öðrum ríkjum. Í heildina hafa rúmlega 11,5 milljónir manna smitast í landinu frá upphafi heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar og tæplega 160 þúsund hafa dáið, samkvæmt Johns Hopkins háskólanum sem heldur utan um opinberar tölur.

Dreifing nýju kórónuveirunnar náði hámarki á Indlandi í september og hefur dregið úr faraldrinum síðan þá. AP hefur eftir sérfræðingum að hin nýja aukning sé rakin til niðurfellinga samkomutakmarkana og þess að fólk leggi minni áherslu á persónubundnar sóttvarnir.

Reuters fréttaveitan segir ráðamenn á Indlandi hafa áhyggjur af dreifingu veirunnar á Mahakumbh-trúarhátíðinni sem haldin er á tólf ára fresti. Hún byrjaði fyrr í þessum mánuði í helga bænum Haridwar en nær hámarki í næsta mánuði og er búist við því að rúmlega 150 milljónir sæki hátíðina.

Þetta fólk mun koma víðsvegar að og meðal annars frá ríkjum þar sem smituðum hefur farið fjölgandi. Ráðamenn í héraðinu hafa sett á grímuskyldu vegna hátíðarinnar og segjast ætla að dreifa milljónum gríma til gesta og sótthreinsa samkomusvæði reglulega.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.