Erlent

„Mamma“ Samia fyrsta konan á forsetastóli í Tansaníu

Kjartan Kjartansson skrifar
Samia Suluhu Hassan á viðburði á þriðjudag, degi áður en hún tilkynnti um andlát Johns Magufuli forseta.
Samia Suluhu Hassan á viðburði á þriðjudag, degi áður en hún tilkynnti um andlát Johns Magufuli forseta. Vísir/AP

Samia Suluhu Hassan varð í dag fyrsta konan til þess að gegna embætti forseta Tansaníu þegar hún sór embættiseið. Hassan var varaforseti Johns Magufuli sem er sagður hafa látist úr hjartaáfalli í vikunni. Hún nýtur virðingar á meðal landsmanna sem kalla hana „Mömmu“ Samiu.

Það var Hassan sem tilkynnti um andlát Magufuli á miðvikudag. Forsetinn hafði afneitað því að kórónuveirufaraldur geisaði í Tansaníu og sagði að fyrirbærnir þjóðarinnar hefðu eytt veirunni. Þegar ekkert sást til forsetans í tvær vikur veltu margir vöngum yfir hvort að hann hefði sjálfur smitast af veirunni. Opinber dánarorsök hans var sögð hjartaáfall. AP-fréttastofan segir að Magufuli hafi verið búinn að viðurkenna alvarleika faraldursins mörgum vikum fyrir andlát sitt.

Samkvæmt stjórnarskrá Tansaníu á Hassan að sitja það sem eftir lifir af fimm ára kjörtímabili Magufuli sem forseti. Þau voru endurkjörin í kosningum í fyrra. 

Hennar bíður nú meðal annars það verk að ákveða hvort hún falist eftir bóluefni gegn veirunni fyrir 58 milljónir landsmanna. Magufuli neitaði að sækjast eftir bóluefni nema hans eigin sérfræðingar gætu metið ágæti þeirra, að sögn Reuters-fréttastofunna.

Hassan er 61 árs gömul og var fyrst kjörin til opinbers embættis árið 2000. Hún vakti fyrst verulega athygli þegar hún var varaformaður stjórnlagaráðs sem kom saman til að semja nýja stjórnarskrá árið 2014. Í þeim störfum var hún talin standa sig vel í að halda skoðanaglöðustu fulltrúum ráðsins við efnið.

Breska ríkisútvarpið BBC tekur sérstaklega fram að gælunafnið „mamma“ sé til marks um virðingu í tansanískri menningu en ekki kynjuð smætting á henni. Hassan er talin yfirvegaðri og íhugulli en Magufuli sem var sagður hvatvís og gjarn á að segja hluti að óathuguðu máli.

Hassan verður einnig fyrsti forseti Tansaníu sem kemur frá Sansíbar, sjálfstjórnarhéraði sem tilheyrir Tansaníu.


Tengdar fréttir

Forseti Tansaníu látinn 61 árs að aldri

John Magufuli, forseti Tansaníu, lést í gær 61 árs að aldri. Varaforseti landsins greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi í dag og sagði Magufuli hafa dáið á spítala í Dar es Salaam, stærstu borg landsins, eftir glímu við bráð hjartavandamál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×