Enski boltinn

Wat­ford upp í annað sætið eftir stór­sigur á meðan Brent­ford mis­steig sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Watford fagna einu af fjórum mörkum sínum í kvöld.
Leikmenn Watford fagna einu af fjórum mörkum sínum í kvöld. Richard Sellers/Getty Images

Það voru sviptingar í toppbaráttunni í ensku B-deildinni í kvöld. Brenford henti frá sér tveggja marka forystu gegn Derby County og Watford komst upp í annað sæti deildarinnar eftir 4-1 útisigur á Rotherham.

Efstu tvö lið ensku B-deildarinnar fara beint upp í ensku úrvalsdeildina á meðan liðin í þriðja til sjötta sæti fara í umspil. Norwich City tróna á toppi deildarinnar en Watford, Swansea City og Brentford heyja hatramma baráttu um annað sætið og þar með farseðil í deild þeirra bestu.

Brentford brjaði leikinn gegn Derby County vel en Ivan Toney kom gestunum yfir með marki úr vítaspyrnu á áttundu mínútu. Fimmtán mínútum síðar tvöfaldaði Sergi Canos forystu gestanna og þeir í góðum málum.

Lee Gregory og Louie Sibley jöfnuðu metin fyrir lærisveina Wayne Rooney í síðari hálfleik og lokatölur því 2-2 á Pride Park. Úrslit sem gera rosalega lítið fyrir Brentford en liðið er nú í 4. sæti með 67 stig.

Watford stökk upp í 2. sæti deildarinnar með 4-1 sigri gegn Rotherham. Þar situr liðið með 72 stig. Sigurinn var aldrei í hættu en staðan var 3-0 í hálfleik. Heimamenn klúðruðu víti áður en þeir minnkuðu muninn í 3-1. Gestirnir bættu þó við fjórða markinu strax í næstu sókn, staðan orðin 4-1 og reyndust það lokatölur.

Leikur Bournemouth og Swansea City er nú í gangi. Staðan er 2-0 fyrir Bournemouth sem þarf á sigri að halda til að eygja von á að komast í umspilið. Swansea myndi með sigri jafna Watford að stigum ásamt því að eiga leik til góða.

Önnur úrslit

Cardiff City 0-0 Stoke City

Luton Town 2-0 Coventry City

Middlesbrough 2-0 Preston North End


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×