Sjálfs­mark Daw­son skildi liðin að á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skömmu eftir að þessi mynd var tekin lá boltinn í netinu og reyndist það eina mark leiksins.
Skömmu eftir að þessi mynd var tekin lá boltinn í netinu og reyndist það eina mark leiksins. Clive Brunskill/Getty Images

Manchester United vann 1-0 sigur á West Ham United í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Leikur kvöldsins var vægast sagt hundleiðinlegur. Hjá heimamönnum virkaði bensínið einfaldlega búið og gestirnir virtust einfaldlega ekki hafa áhuga á að sækja til sigurs. Það kemur því ekki á óvart að staðan hafi verið markalaus er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Mason Greenwood komst hvað næst því að koma knettinum í netið en Łukasz Fabiański átti hreint magnaða markvörslu í marki West Ham United, fingurgómar markvarðarins sáu til þess að boltinn fór aftur fyrir í hornspyrnu.

Kom þetta færi þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum og var þetta eina markverða færi fyrri hálfleiksins.

Heimamenn komust yfir eftir átta mínútna leik í síðari hálfleik. Bruno Fernandes tók þá hornspyrnu frá vinstri inn á teig og þó Scott McTominay hafi fagnað markinu sýndu endursýningar marksins að Craig Dawson varð fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net.

Eftir að lenda undir sýndu leikmenn West Ham fyrst einhvern metnað sóknarlega en sóknir þeirra þó máttlausar enda átti liðið ekki skot á markið í leiknum. Fabianski kom West Ham aftur til bjargar þegar hann varði vel frá Bruno og þá var Greenwood nálægt því að tvöfalda forystu heimamanna seint í leiknum en skot hans fór í stöng og út. 

Það kom ekki að sök þar sem sóknartilburðir gestanna voru litlir sem engir og lokatölur leiksins því 1-0 Manchester United í vil. Man United komst þar með aftur upp í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Nú með 57 stig að loknum 29 leikjum. Leicester City kemur þar á eftir með 56 stig en West Ham er í 5. sæti með 48 stig.

Manchester City tróna sem fyrr á toppi deildarinnar með 71 stig að loknum 30 leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira