Enski boltinn

Mourinho segir að Gareth Bale sé nú búinn að græða sálfræðileg sár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er létt yfir Gareth Bale þessa dagana enda farinn að sýna aftur hvað hann getur inn á fótboltavellinum.
Það er létt yfir Gareth Bale þessa dagana enda farinn að sýna aftur hvað hann getur inn á fótboltavellinum. Getty/Clive Rose

Gareth Bale hefur heldur betur minnt á sig í síðustu leikjum með Tottenham liðinu og var enn á ný á skotskónum í sigri á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Gareth Bale skoraði tvö mörk líkt og Harry Kane og með 4-1 sigri á Crystal Palace og fyrir vikið komst Tottenham upp í sjötta sætið og er nú aðeins tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

Bale byrjaði ekki vel hjá Tottenham í haust og fékk oft lítið að spila en hefur nú skorað sex mörk og gefið þrjár stoðsendingar í síðustu sex leikjum með liðinu og er farinn að minna aftur á manninn sem Real Madrid borgaði metupphæð fyrir á sínum tíma.

Þessir leikir hafa farið fram á aðeins sautján dögum en á þessum tíma hefur sálarlíf Bale lagast mikið ef marka má knattspyrnustjórann hans.

„Ég fann sálfræðileg sár. Þegar þú ferð í gegnum nokkur meiðslahrjáð tímabil í röð þá snýst þetta ekki um sárin á vöðvunum heldur sárin á sálinni. Það kallar á ótta og óstöðugleika,“ sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, eftir leikinn.

„Það er tímapunktur þar sem allt gengur vel og allir í kringum þig eru að gefa allt sitt. Þá er stundin til að brjótast í gegnum þennan sálfræðimúr. Og hann komst í gegnum hann. Það var hann en ekki við. Við studdum bara við bakið á honum,“ sagði Mourinho.

Gareth Bale skoraði líka tvö mörk í sigri á Burnley á dögunum og þá hefur hann skorað í síðustu tveimur leikjum Tottenham í Evrópudeildinni.

Bale er alls með 5 mörk og 2 stoðsendingar í 11 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.