Enski boltinn

„Hversu marga úti­leiki vann Totten­ham árið áður en ég kom?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jose Mourinho var léttur eftir sigurinn á Fulham.
Jose Mourinho var léttur eftir sigurinn á Fulham. Neil Hall/Getty

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, sló á létta strengi eftir 1-0 sigurinn á Fulham á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í gær. Sigur sem heldur Meistaradeildarbaráttu Tottenham á lífi en Mourinho vildi sem minnst ræða um þá baráttu.

Þökk sé sjálfsmarki Fulham í fyrri hálfleik tóku Tottenham menn stigin þrjú í Lundúnarslagnum en Tottenham er nú fimm stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu og eiga einn leik til góða á nágranna sína.

Tottenham vann 4-0 sigur á Burnley um helgina og þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember sem liðið vinnur tvo leiki í röð. Reshmin Chowdhury, fréttakona BT Sport, bar það undir Portúgalann sem lá ekki á svörum, líkt og vanalega:

„Þú þekkir allar neikvæðu staðreyndirnar,“ sagði Mourinho í tvígang áður en hann hélt áfram:

„Ég er með áskorun á þig; hversu marga leiki unnu Tottenham á útivelli árið áður en ég kom? Og hversu marga leiki höfum við unnið á útivelli síðan? Ég veit ekki svarið. Get ég farið?“ sagði sá portúgalski léttur.

Reshmin glotti við tönn við svari Mourinho og hún sagði að hún myndi leita upp svara við áskoruninni. Aðspurður um topp fjóra svaraði Mourinho:

„Ég vil ekki segja að við séum að berjast fyrir topp fjórum sætunum. Ég vil segja að við erum að berjast fyrir því að vinna næsta leik.“

„Það er leiðin sem við erum að fara og svo er það Evrópudeildin. Við erum í útsláttarkeppni og viljum komast í átta liða úrslitin. Auðvitað hjálpa góð úrslit. Fólk brosir en við munum sjá hvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×