Innlent

„Stórundarlegt“ að ekki hafi verið brugðist við

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi.
Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi. Vísir/vilhelm

Bæjarfulltrúi minnihlutans í Seltjarnarnesbæ telur stórundarlegt að bæjaryfirvöld hafi ekki enn brugðist við athugasemdum slökkviliðs vegna brunavarna á Eiðistorgi. Ólýðandi sé að eignir bæjarins séu að valda skemmdum á eignum bæjarbúa. Bærinn segir brunamál á Eiðistorgi í vinnslu.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að brotalamir væru á brunavörnum á Eiðistorgi sem meðal annars mætti rekja til þaks, sem er í eigu bæjarins. Bærinn hefði ekkert aðhafst þrátt fyrir athugasemdir slökkviliðs.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því í dag. Einar Már Steingrímsson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að eldvarnarhurðir á Eiðistorgi séu í pöntun og reyklosunarbúnaður í skoðun. Verið sé að leita útfærslu og tilboða. Hluti þaksins hafi verið lagfærður fyrir fimm árum. 

Þá sé öll brunahönnun á Eiðistorgi í ferli. Ekki sé hægt að neita því að brunamál á Eiðistorgi hafi verið mjög lengi í vinnslu hjá bænum.

„Ólíðandi“ að eignir bæjarins skemmi eignir bæjarbúa

Karl Pétur Jónsson er bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi. Hann hafði ekki heyrt af málinu fyrr en í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær og segir það ekki hafa komið inn á vettvang bæjarstjórnar.

„Það er náttúrulega algjörlega ólíðandi að eignir bæjarins séu að valda skemmdum á eignum bæjarbúa, fyrir utan það að bærinn hefur lögbundna skyldu til að bregðast við athugasemdum slökkviliðsins og það er stórundarlegt að það hafi ekki verið gert á einu og hálfu ári,“ segir Karl Pétur.

Telurðu tilefni til að bregðast tafarlaust við þessu?

„Það er náttúrulega bara skylda þess sem fer með framkvæmdavaldið í bænum að bregðast við þessu og það er bæjarstjórinn og hennar undirmenn sem eru sviðsstjórar á viðeigandi sviðum. Ég veit það er flókið og gæti verið kostnaðarsamt en skylda bæjarins er að bregðast við,“ segir Karl Pétur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.